Umfjöllun, viðtöl og myndir: Álftanes - Grindavík 86-79| Fyrsti sigur nýliðanna í hús

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dúi Þór var yfirburðamaður í liði Álftaness í kvöld
Dúi Þór var yfirburðamaður í liði Álftaness í kvöld Vísir / Anton Brink

Álftanes vann sinn fyrsta leik í Subway deild karla þegar liðið mætti Grindavík í Forsetahöllinni. Eftir að hafa verið yfir allan leikinn missti Álftanes forystuna undir lokin, en góður varnarleikur á endasprettinum tryggði sigurinn að lokum.  

DeAndre Kane spilaði sinn fyrsta leik fyrir Grindavík í kvöldVísir / Anton Brink

Heimamenn hófu leikinn af krafti, náðu upp sterkri forystu snemma sem gestunum reyndist erfitt að vinna til baka. Dúi Þór var algjör yfirburðamaður á vellinum í upphafi leiks, setti níu stig strax og Álftanes endaði fyrsta leikhlutann með tíu stiga forskot.

Hrinan hélt áfram í öðrum leikhlutanum, Grindvíkingar fundu sig fljótlega átján stigum undir og blésu til leikhlés. Þeim tókst í kjölfarið að minnka muninn aðeins og tólf stiga munur var milli liðanna þegar fyrri hálfleikurinn kláraðist. 

Dedrick og Dúi í harðri baráttu Vísir / Anton Brink

Sóknarleikur Grindavíkur stórbatnaði í seinni hálfleiknum og það mátti greina aukinn eldmóð í liðinu eftir að hafa rætt saman í búningsherbergjunum. Varnarleikur liðsins hertist svo verulega undir lok þriðja leikhlutans og aðeins fimm stig skildu liðin að. 

Hörður Axel keyrir að körfunni Vísir / Anton Brink

Skyndilega færðist gríðarlega spenna í leikinn, Grindvíkurliðið fann taktinn og Álftnesingar áttu í stökustu vandræðum með þá. Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, steig virkilega vel upp undir lok leiks og barði sína menn áfram, hann setti tvo stóra þrista og skyndilega var Grindavík komið tveimur stigum yfir.

Ólafur verst áhlaupi Dino StipcicVísir / Anton Brink

Þeim tókst þó ekki að halda það út, það var algjörlega rafmögnuð spenna í loftinu undir lokin en Álftanes lokaði vel á sóknir Grindvíkinga síðustu tvær mínúturnar og sóttu sjálfir vel, Dúi Þór keyrði tvívegis að körfunni á lokamínútunni og gerði útaf við leikinn, lokaniðurstaða 86-79. 

Dúi Þór gerði útaf við leikinn á lokamínútunum Vísir / Anton Brink

Afhverju vann Álftanes? 

Snerist allt um upphaf og endi í kvöld, Álftanes byrjaði leikinn mun betur og endaði hann af krafti. 

Hverjir stóðu upp úr? 

Dúi Þór var stórkostlegur fyrir Álftanes í kvöld, leikurinn hefði tapast án hans.  

DeAndre Kane átti flottan fyrsta leik í liði Grindavíkur, Ólafur Ólafsson steig svo mjög vel upp undir lokin. 

Hvað gekk illa? 

Grindvíkingar byrjuðu leikinn brösulega og það reyndist þeim dýrkeypt. Voru betra liðið á löngum köflum og náðu forystunni undir lokin, en voru alveg sprungnir þegar þar var að komið og gátu ekki lokað leiknum. 

Hvað gerist næst? 

Næsta umferð fer fram fimmtudaginn 19. október, þar tekur Grindavík á móti Íslandsmeisturum Tindastóls á meðan Álftanes heimsækir Breiðablik. 

Jóhann Þór: Gáfum þessu góðan séns og hefðum getað tekið þetta 

Taugar Jóhanns Þórs voru vel þandar í kvöld Vísir / Anton Brink

„Svekktur, mikið svekkelsi. Vorum mjög slakir í fyrri hálfleik, vantaði alla ákefð og allan kraft á báðum endum. Allt annað í seinni, við gáfum þessu góðan séns og hefðum getað tekið þetta en systurnar ef og hefði voru ekki með okkur í liði í kvöld. Þegar við þurftum að setja stór skot þá bara hittum við ekki“ sagði Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, strax að leik loknum. 

Eftir erfiða byrjun tókst þjálfaranum að stilla strengi liðsins betur saman í seinni hálfleiknum. Hvað breyttist? 

„Komum bara með ákefð og kraft inn í okkar leik, vorum alveg á hælunum í fyrri hálfleik. Mjötluðum þetta niður, þeir fóru samt mest 18 stigum yfir, sem er svosem enginn munur í körfubolta. En ég er ánægður með seinni hálfleikinn og það er eitthvað sem við getum byggt á.“

DeAndre Kane spilaði sinn fyrsta leik fyrir liðið í kvöld, hann skrifaði undir samning við Grindavík síðastliðinn maí og hefur verið beðið af mikilli eftirvæntingu. 

„Bara [komið] mjög vel [inn í liðið]. Þetta er algjör eðalnáungi sem passar vel inn í hópinn, góður í körfubolta og mér líst bara vel á framhaldið.“

Grindavík tekur á móti Tindastól í næstu umferð Subway deildarinnar og vonast til að sækja sinn fyrsta sigur á tímabilinu. 

„Það er bara áfram gakk, eins og ég sagði getum við byggt ofan á seinni hálfleikinn og ég hlakka til að bjóða Skagfirðingum í nýja íþróttahúsið heima í Grindavík, það verður gaman“ sagði Jóhann Þór að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira