Viðskipti innlent

Hrund hættir og Þóranna tekur við

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þóranna Jónsdóttir er nýr forstjóri Veritas.
Þóranna Jónsdóttir er nýr forstjóri Veritas. Veritas

Þóranna Jónsdóttir hefur verið ráðin tímabundið sem forstjóri Veritas. Hrund Rudolfsdóttir, sem hefur verið forstjóri síðastliðin tíu ár, hefur samið um starfslok sín. 

Hrund mun halda áfram í stjórn félagsins og vera stjórnendum innan handar. Segir í tilkynningu frá Veritas að ákvörðunin um starfslok hennar hafi verið sameiginleg.

„Hrund tók við forstjórastarfinu af mér árið 2013 og hafði setið í stjórn Veritas í fjögur ár,“ er haft eftir Hreggviði Jónssyni, stjórnarformanni Veritas. „Félagið hefur vaxið og eflst svo um munar undir hennar stjórn og stendur fjárhagslega sterkt. Ég þakka Hrund farsælt samstarf undanfarin 14 ár og hennar þátt í þeim góða árangri sem náðst hefur. Það er eftirsjá að henni, en við óskum Hrund velfarnaðar í framtíðarverkefnum.“

Þóranna hefur starfað sem sjálfstæður stjórnendaráðgjafi meðal annars fyrir Alvotech, Marel og ýmsar opinberar stofnanir. Hún hefur sinnt margvíslegum störfum við Háskólann í Reykjavík, var forseti viðskiptadeildar 2013-2016 og framkvæmdastjóri stjórnunar og rekstrar þar á undan. 

Hún var framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá systurfélögunum Veritas og Vistor árin 2005-2008, fyrsti framkvæmdastjóri Artasan og ein af stofnfélögum Auðar Capital. Þóranna hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu, er formaður stjórnar Landsbréfa, í stjórn Veritas frá 2018 og áður meðal annars í stjórnum Festi, Krónunnar, Íslandsbanka og Lyfju. Þóranna er með doktorsgráðu í viðskiptafræði frá Cranfield University, MBA gráðu frá IESE í Barcelona og MSc gráðu í lyfjafræði.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×