Landsbankinn hefur verið á Austurstræti í tæp hundrað ár.Vísir/Vilhelm
Tæplega hundrað ára sögu Landsbankans í Austurstræti lýkur í dag. Klukkan 16 verður skellt í lás í hinsta sinn.
Starfsemin flyst yfir í nýtt útibú bankans í Reykjastræti 6 sem hefur þegar opnað.
Við dagslok lýkur 99 ára sögu bankans í húsinu við Austurstræti 11 en starfsemi Landsbankans á sér langa hefð og djúpar rætur í miðborg Reykjavíkur, að því er segir í tilkynningu á vef Landsbankans.
Þar segir að allt frá árinu 1898 hafi höfuðstöðvar bankans sett sterkan svip á borgarmyndina. Landsbankinn bendir áhugasömum á grein sem Pétur Hrafn Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri hjá Minjastofnun Íslands, skrifaði um sögu bankans í miðbænum á þessum tímamótum.
Þar rekur Pétur Hrafn sögu húsnæðiskost bankans allt frá því að hann var opnaður í Bakarabrekku, sem síðar var nefnd Bankastræti, þar til viðbygging var reist við húsið í Austurstræti.
Opnunartími í sjö útibúum Landsbankans styttist um þrjár klukkustundir þann 13. september. Útibúi bankans í Háskólabíói í Vesturbæ Reykjavíkur verður lokað. Engar uppsagnir fylgja breytingunum.
Landsbankinn á Akureyri mun flytja sig yfir í Hofsbót 2-4 á Akureyri fyrir árslok 2024, samkvæmt langtímaleigusamningi sem gerður hefur verið við eigendur húsanna.
Starfsmenn Landsbankans eru að flytja í nýtt hús bankans við Reykjastræti en frágangi á lóð og innréttingum verður að fullu lokið í sumar og haust. Bankinn nýtir sjálfur um 60 prósent hússins en ríkið hefur fest kaup hinum hlutanum sem meðal annars mun hýsa utanríkisráðuneytið.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.