Körfubolti

Serbar þægilega í úrslit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Serbar fögnuðu vel í morgun.
Serbar fögnuðu vel í morgun. Getty

Serbía mun leika til úrslita á HM karla í körfubolta sem fram fer í Filippseyjum, Japan og Indónesíu. Liðið lagði Kanada í undanúrslitum í Manila í morgun.

Serbar féllu úr leik í 16-liða úrslitum fyrir fjórum árum en hafa sýnt styrk sinn í ár og það án sinnar helstu stjörnu, Nikola Jokic úr Denver Nuggets.

Serbar voru með yfirhöndina frá upphafi leiks og leiddu 23-15 eftir fyrsta leikhluta. Forystuna létu Serbar aldrei af hendi og unnu þeir að lokum 95-86 sigur í leik sem varð aldrei spennandi á lokakaflanum.

Bogdan Bogdanovic, leikmaður Atlanta Hawks, fór fyrir Serbum með 23 stig, auk þess sem hann tók fjögur fráköst, gaf þrjár stoðsendingar og stal þremur boltum. Nikola Milutinov, leikmaður Olympiakos í Grikklandi, skoraði þá 16 stig, skoraði úr öllum sex skotum sínum utan af velli, og tók tíu fráköst.

Annað hvort Bandaríkin eða Þýskaland bíða Serba í úrslitum en liðin tvö mætast í síðari undanúrslitaviðureigninni sem fram fer eftir hádegið. Úrslitin fara fram á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×