Viðskipti erlent

Hluta­bréf í App­le falla vegna fregna af iP­hone-banni í Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Opinberir starfsmenn í Kína mega ekki lengur nota iPhone í vinnunni né í tengslum við vinnuna.
Opinberir starfsmenn í Kína mega ekki lengur nota iPhone í vinnunni né í tengslum við vinnuna. epa/Wu Hao

Hlutabréf í Apple hafa fallið um sex prósent, næstum 200 milljarða dala, á aðeins tveimur dögum. Ástæðan eru fregnir af því að stjórnvöld í Kína hafi bannað opinberum starfsmönnum að nota iPhone.

Kína er þriðji stærsti markaður Apple og taldi 18 prósent af heildartekjum fyrirtækisins í fyrra. Þá eru flestar vörur Apple framleiddar í Kína, af fyrirtækinu Foxconn.

Wall Street Journal greindi frá því á miðvikudag að opinberum starfsmönnum í Kína hefði verið bannað að nota iPhone í vinnunni og í tengslum við vinnuna. Þá sagði Bloomberg News frá því í gær að bannið næði líklega einnig til starfsmanna fyrirtækja í ríkiseigu og ríkisfjármagnaðra stofnana.

Nýir iPhone, iPhone 15 og iPhone 15 Pro, verða kynntir til sögunnar 12. september næstkomandi.

Kínverjar hafa ekki sent frá sér neinar tilkynningar vegna fregnanna né hefur Apple svarað fyrirspurnum fjölmiðla. Samkvæmt BBC hafa hlutabréf nokkurra fyrirtækja sem sjá Apple fyrir íhlutum einnig lækkað nokkuð.

Viðskiptastríð Kína og Bandaríkjamanna virðist vera að stigmagnast en stjórnvöld í Washington, og einni Japan og Hollandi, hafa takmarkað aðgengi Kínverja að nýrri örflögutækni. Kína brást við með því að takmarka útflutning á tveimur lykilhráefnum við framleiðslu hálfleiðara.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×