Viðskipti innlent

Gunnar vildi hækka stýri­vextina minna en aðrir í nefndinni

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnar Jakobsson taldi að áhrif síðustu vaxtahækkana á þróunina fram á við væru mögulega vanmetin í ljósi þess að vextir hefðu verið hækkaðir skarpt undanfarið og áhrif hækkananna væru ekki að fullu komin fram.
Gunnar Jakobsson taldi að áhrif síðustu vaxtahækkana á þróunina fram á við væru mögulega vanmetin í ljósi þess að vextir hefðu verið hækkaðir skarpt undanfarið og áhrif hækkananna væru ekki að fullu komin fram. Vísir/Vilhelm

Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, greiddi atkvæði gegn tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóri á fundi peningastefnunefndar í síðasta mánuði þar sem ákveðið var að hækka stýrivexi um 0,5 prósentur, úr 8,75 prósent í 9,25 prósent.

Þetta kemur fram í fundargerð frá fundum nefndarinnar 21. og 22. ágúst sem birt var á vef Seðlabankans í gær. Þar kemur fram að Gunnar hafi viljað hækka vextina um 0,25 prósent.

Þar segir að Gunnar hafi talið að áhrif síðustu vaxtahækkana á þróunina fram á við væru mögulega vanmetin í ljósi þess að vextir hefðu verið hækkaðir skarpt undanfarið og áhrif hækkananna væru ekki að fullu komin fram.

„Raunvextir hefðu farið hækkandi og taumhald peningastefnunnar aukist jafnt og þétt undanfarið ár. Því væru meiri líkur en minni til þess að ekki væri þörf á miklum vaxtahækkunum til þess að ná fram auknu taumhaldi peningastefnunnar,“ segir í fundargerðinni.

Sammála um að herða taumhaldið

Ennfremur segir að nefndin hafi verið sammála um að í ljósi aðstæðna væri nauðsynlegt að herða nú taumhald peningastefnunnar enn frekar. 

„Taldi nefndin að einkum væri mikilvægt að koma í veg fyrir víxlverkun hækkandi launa og verðlags. Að mati hennar væru vísbendingar um að áhrif vaxtahækkana undanfarin misseri væru að koma skýrar fram og myndi peningastefnan á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga,“ segir í fundargerðinni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×