Viðskipti innlent

Barist um flug­menn á heims­vísu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Birgir Jónsson forstjóri Play og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair.
Birgir Jónsson forstjóri Play og Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair. Vísir

Barist er um flugmenn á heimsvísu og dæmi eru um að flugfélög þurfi að draga saman flugáætlanir þar sem ekki tekst manna áhafnir. Fjórtán flugmenn Play sögðu upp í gær eftir að hafa fengið atvinnutilboð hjá Icelandair.

Allir flugmenn Play voru boðaðir á fund í vikunni eftir að Icelandair bauð allmörgum þeirra vinnu. Play brást við með því að hækka laun flugmanna - og um allt að fimmtíu prósent samkvæmt frétt Túrista. Birgir Jónsson forstjóri Play segir barist um stéttina.

„Öll flugfélög í heiminum eru að ráða og stækka við sig og það er mikil uppsveifa i ferðamannaiðnaði og það kemur bara fram í launaþrýstingi á þessar stéttir,“ segir Birgir.

„Það lá fyrir í sumar út af þessari samkeppni á alþjóðamarkaði að okkar laun, þegar kemur að flugmönnum, voru orðin úr takti við það sem er verið að bjóða á heimsvísu þannig við hófum vinnu við að laga þau kjör og kynntum það fyrir okkar fólki núna í vikunni. Það lagðist mjög vel í fólk og það er kannski ástæðan fyrir því að við höfum ekki miklar áhyggjur af því að þetta raski okkur mikið.“

Fjórtán flugmenn tóku boðinu en Birgir segir að það muni ekki hafa áhrif á flugáætlun félagsins. 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að umræddir flugmenn hafi sótt um starf hjá félaginu fyrir nokkru síðan. Þeim hafi ekki verið settir neinir afarkostir og gert að segja upp störfum nær samdægurs, líkt og verið hefur í umræðunni. 

Hann segir mikla samkeppni um starfsfólk og dæmi um að félög hafi þurft að draga saman flugáætlun.

„Við höfum séð dæmi um það hjá kollegum okkar úti í heimi,“ segir Bogi og tekur fram að Icelandair sé ekki í þeirri stöðu.

„En við fylgjumst auðvitað með þessari þróun og þessum skorti og erum að hjálpa ungu fólki að fara í flugnám og munum gera það aftur núna og hvetjum til þess að fólk geri það. Ætlum að setja það í gang með auknum krafti,“

 Hvernig eruð þið að liðka til?

„Það er með samstarfi við flugskóla og þess háttar og auðvelda fólki að fara í slíkt nám. Með því að fara í samstarf við fleiri flugskóla hér og í nágrannalöndunum.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×