Handbolti

Dagur jafnaði úr víti á loka­sekúndunni gegn Kol­stad

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sigvaldi Björn
Sigvaldi Björn Kolstad

Hið stjörnum prýdda lið Kolstad gerði jafntefli á heimavelli gegn Arendal þegar norska úrvalsdeildin í handbolta fór af stað í dag. Þrír Íslendingar komu við sögu í leiknum.

Töluvert hefur verið fjallað um norska liðið Kolstad í sumar og þá aðallega þau gríðarlegu fjárhagsvandræði sem félagið er í. Leikmenn liðsins þurftu að taka á sig launalækkun en norsku landsliðsmennirnir Sandor Sagosen og Magnus Röd gengu til liðs við félagið í sumar.

Sigvaldi Björn Guðjónsson leikur með félaginu en Magdeburg nældi í Janus Daða Smárason þegar vandræði Kolstad urðu ljós.

Í dag lék Kolstad síðan sinn fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni en félagið varð tvöfaldur meistari á síðasta tímabili. Liðið tók á móti Arendal á heimavelli en með Arendal leika þeir Dagur Gautason og Hafþór Vignisson.

Fyrri hálfleikur var jafn og skiptust liðin á að hafa forystuna. Staðan í hálfleik var 16-14 fyrir Kolstad sem náði góðum kafla í byrjun seinni hálfleiks og komst fimm mörkum yfir í stöðunni 22-17.

Þegar tíu mínútur voru eftir var staðan 30-24 heimamönnum í vil og allt virtist stefna í þægilegan sigur. Þá fór hins vegar allt í skrúfuna hjá Kolstad. Leikmenn Arendal minnkuðu muninn jafnt og þétt og aðeins munaði einu marki 31-30 þegar fimm mínútur voru eftir.

Kolstad skoraði þá tvö mörk í röð og virtist ætla að sigla sigrinum heim. Gestirnir voru ekki á því, skoruðu þrjú síðustu mörkin og fengu síðan vítakast um leið og tíminn rann út.

Dagur Gautason steig á vítapunktinn og skoraði og tryggði Arendal sætt jafntefli, lokatölur 33-33.

Dagur skoraði sex mörk úr sex tilraunum fyrir Arendal í dag og Hafþór Vignisson eitt. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði átta mörk fyrir Kolstad.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×