Handbolti

Tryggvi og félagar enn með fullt hús stiga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof fara vel af stað í sænska bikarnum.
Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof fara vel af stað í sænska bikarnum. Vísir/Hulda Margrét

Tryggvi Þórisson og félagar hans í Sävehof hafa unnið fyrstu tvo leikina sína í sænsku bikarkeppninni í handbolta eftir öruggan sjö marka sigur gegn Kroppskultur í dag, 36-29.

Heimamenn í Kroppskultur byrjuðu leikinn þó mun betur og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins. Tryggvi og félagar voru þó ekki lengi að kveikja á sér eftir það og jöfnuðu metin strax í stöðunni 5-5.

Eftir það virtust gestirnir í Sävehof skrefinu framar það sem eftir lifði leiks. Tryggvi og félagar náðu mest fjögurra marka forskoti í fyrri hálfleik, en staðan að honum loknum var 16-13, Sävehof í vil.

Heimamenn í Kroppskultur náðu í þrígang að minnka muninn niður í tvö mörk, en nær komust þeir ekki og Sävehof vann að lokum öruggan sjö marka sigur, 36-29. Varnarmaðurinn Tryggvi skoraði eitt mark fyrir liðið.

Sävehof hefur því unnið tvo fyrstu leiki bikarkeppninnar, en leikið er í riðlum. Liðið er nú með fjögur stig í efsta sæti riðils tvö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×