Skaginn 3X er hátækniframleiðandi á kæli-, frysti- og vinnslukerfum fyrir alþjóðlegan matvælaiðnað með áherslu á sjávarútveg.
Þýska samsteypan Baader keypti allt hlutafé Skagans 3X í febrúar árið 2022. Þá sagði að fyrirtækið verði betur í stakk búið að takast á við skuldbindingar sínar og þær kröfur sem gerðar séu til fyrirtækisins. Samkvæmt tilkynningu nú segir að reksturinn hafi verið mjög þungur síðustu misseri.
„Eins og áður hefur komið fram þurfti fyrirtækið að fara í viðamikið endurmat á skuldbindingum og kröfum í kjölfar eigendaskipta. Þá hefur ólga verið á helstu mörkuðum þess síðustu misseri, bæði vegna stríðsátaka sem tengjast Rússlandi og Covid heimsfaraldursins. Við höfum velt við hverjum steini þar sem þær rekstrar- og markaðslegu forsendur sem lagt var upp með við eigendaskiptin hafa ekki gengið eftir. Niðurstaðan varð sú að samþætta alla framleiðslu á Akranesi,“ er haft eftir Sigsteini Grétarssyni, forstjóra Skagans 3X.
Áfram verði unnið að því að efla samkeppnishæfni fyrirtækisins á alþjóðamörkuðum og samþætta enn frekar starfsemina við alþjóðlega starfsemi Baader.
„Baader samsteypan og starfsmenn hennar á Íslandi munu áfram bjóða viðskiptavinum sínum upp á framúrskarandi þjónustu og varahlutasölu í nánu samstarfi við íslenskan sjávarútveg og fiskeldi,“ segir að lokum í tilkynningunni.