Neytendur

Undrandi á því að bankarnir meini við­skipta­vinum Indó að nálgast gjald­eyri

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Tryggvi Davíðsson og Haukur Skúlason, stofnendur Indó sparisjóðs. Haukur furðar sig á nýjum reglum stóru viðskiptabankanna þriggja.
Tryggvi Davíðsson og Haukur Skúlason, stofnendur Indó sparisjóðs. Haukur furðar sig á nýjum reglum stóru viðskiptabankanna þriggja. Vísir/Vilhelm

Sam­kvæmt nýjum reglum við­skipta­bankanna þriggja þurfa við­skipta­vinir nú að vera búnir að svara á­reiðan­leika­könnun og vera í við­skiptum við bankanna áður en þeir skipta gjald­eyri hjá bönkunum. Við­skipta­vinir sem hafa fært sig annað, til að mynda til spari­sjóðsins Indó hafa lent í vand­ræðum vegna þessa. Fram­kvæmda­stjóri Indó segir vert að at­hugað sé hvort nýjar reglur sam­rýmist sátt bankanna við Sam­keppnis­eftir­litið frá 2017.

Lilja Katrín Gunnars­dóttir, þátta­stjórnandi Bítisins á Bylgjunni, lýsti því í þættinum fyrr í vikunni að hún hefði fært við­skipti sín yfir til spari­sjóðsins Indó fyrir nokkrum mánuðum. Hún er á leið til út­landa og ætlaði að fá að skipta gjald­eyri hjá Arion banka og Ís­lands­banka, sínum gamla banka en var tjáð á báðum stöðum að hún yrði að fara í sinn við­skipta­banka. Indó rekur ekkert úti­bú og fór Lilja að endingu í úti­bú Arion banka í Leifs­stöð og skipti þar krónum fyrir evrur. Hún segist aldrei hafa lent í við­líka vand­ræðum við að skipta gjald­eyri áður.

Verði að svara á­reiðan­leika­könnun

Vísir sendi við­skipta­bönkunum þremur, Arion banka, Ís­lands­banka og Lands­bankanum fyrir­spurn vegna málsins. Í svörum þeirra kemur meðal annar fram að nýjar reglur hafi verið inn­leiddar þar sem þess er krafist að þeir sem eigi í gjald­eyris­við­skiptum við bankanna hafi svarað svo­kallaðri á­reiðan­leika­könnun.

Í svörum frá Arion banka segir að á meðal þeirra laga­skyldna sem hvíli á bankanum sé að fram­kvæma á­reiðan­leika­könnun á við­skipta­vinum bankans, hafa eftir­lit með upp­runa fjár­muna og tryggja að við­skipti séu rekjan­leg. Skyldurnar séu liður í al­mennum vörnum gegn peninga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka.

„Vegna þessa teljum við okkur ekki kleift að eiga í reiðu­fjár­við­skiptum í úti­búum bankans við aðra en þá sem hafa farið í gegnum á­reiðan­leika­könnun hjá okkur. Við tókum þetta verk­lag upp árið 2020 og ný­verið hertum við á reglunum.“

Eðli málsins sam­kvæmt gildi að­eins rýmri reglur í úti­búi bankans á Kefla­víkur­flug­velli. Þar sé gegn fram­vísun brott­fara­spjalds, heimilt að kaupa og selja gjald­eyri fyrir að há­marki 500 þúsund krónum og að há­marki einni milljón króna á sex mánaða tíma­bili. Undan­tekninga­laust þurfi að gefa upp fullt nafn, fæðingar­dag og eftir at­vikum kunni bankinn að óska frekari upp­lýsinga svo fram­kvæma megi við­skiptin.

Bankarnir segjast hlýta nýjum lögum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með nýju reglunum.

Svör Ís­lands­banka eru á svipaðan veg. Bankinn starfi í sam­ræmi við lög um að­gerðir gegn peninga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka. Við­skipta­vinir þurfi því að svara á­reiðan­leika­könnun.

„Um gjald­eyris­við­skipti á þetta við:

• Hægt er að kaupa gjald­eyri hjá gjald­kera ef þú ert búin að vera með virk launa­við­skipti í 3 mánuði eða ert með lang­tíma­sparnað.

• Hægt er að kaupa gjald­eyri í hrað­banka með raf­rænum skil­ríkjum ef við­komandi á sparnaðar­reikning.“

Í svörum Lands­bankans segir að bankinn hafi gert breytingar á reiðu­fjár­þjónustu sinni í vor. Þeim breytingum hafi verið ætlað að upp­fylla kröfur varðandi eftir­lit með peninga­þvætti, en einnig að sögn bankans til þess að stuðla að betri þjónustu við við­skipta­vini.

„Í hnot­skurn fólust breytingarnar í því að hvers­kyns notkun peninga­seðla (reiðu­fjár) í við­skiptum við og í gegnum Lands­bankann eru ein­göngu ætluð við­skipta­vinum bankans sem hafa svarað lög­bundinni á­reiðan­leika­könnun. Við­skipta­vinir annarra banka þurfa að fara með reiðu­fé í sína við­skipta­banka. Það tekur reyndar bara nokkrar mínútur að stofna til við­skipta við Lands­bankann og svara á­reiðan­leika­könnuninni og því getur fólk sem kemur í úti­bú, en er ekki í við­skiptum, stofnað til við­skipta við Lands­bankann á staðnum og klárað málið.“

Full­yrt er í svörum bankans að við­skipta­vinir hans séu með mjög gott að­gengi að reiðu­fjár­þjónustu um allt land, þar með talið vegna við­skipta með er­lent fé. Rétt sé að taka fram að við­skipta­vinir greiði ekkert gjald fyrir að taka út reiðu­fé af reikningum sínum hjá bankanum, hvorki þegar þeir noti debet­kort í hrað­banka né hjá gjald­kera.

Uppfært 9:14: 

Athugasemd frá Landsbankanum 

Breytingarnar í vor snerust um að hvers kyns notkun peningaseðla í viðskiptum við og í gegnum Landsbankann eru eingöngu fyrir viðskiptavini sem hafa svarað lögbundinni áreiðanleikakönnun. Þetta á bæði við um íslenskar krónur og erlendan gjaldeyri.

Vegna vangaveltna um hvers vegna þessar breytingar hafi tekið gildi nú í vor, er rétt að taka fram að það var gert í kjölfar samskipta við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands sem hefur eftirlit með og tekur reglulega út varnir fjármálafyrirtækja gegn peningaþvætti. Frá því lög um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka tóku gildi árið 2019 höfum við nokkrum sinnum breytt og hert á verklagi.

Ef einstaklingur kemur í bankann og vill skipta erlendum seðlum þá er það einfalt mál. Það eina sem þarf að gera er að gerast viðskiptavinur bankans. Það er t.d. hægt að gera með því að ná í Landsbankaappið, svara áreiðanleikakönnun og stofna reikning. Þetta er ókeypis, mjög fljótlegt og afar einfalt.

Lögin hafi verið í gildi síðan 2018

Haukur Skúla­son, stofnandi og fram­kvæmda­stjóri Indó, spari­sjóðsins sem hóf rekstur sinn í upp­hafi ársins, segir í sam­tali við Vísi að sér finnist á­huga­vert að við­skipta­bankarnir þrír beri fyrir sig lög um peninga­þvætti og fjár­mögnun hryðju­verka sem hafi verið í gildi síðan 2018. Ljóst sé að breytingar á þessum reglum komi niður á við­skipta­vinum Indó.

„Mér finnst merki­legt að fyrst þegar fólk er farið að taka eftir okkur á markaði að þá rjúki menn til fimm árum seinna og setji þetta af stað. Hvers vegna voru menn þá ekki löngu búnir að þessu?“

Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri Indó, segir það áhugavert að bankarnir beri fyrir sig fimm ára gömul lög vegna nýrra reglna um gjaldeyrisviðskipti. Vísir/Vilhelm

Væri á­huga­vert að fá skoðun Sam­keppnis­eftir­litsins

Haukur segir engan vafa á því að það sé bundið í lög að bönkum beri að gera áreiðanleikakönnun á sínum viðskiptavinum. Hann segist ekki sannfærður um að það eitt og sér að skipta nokkrum þúsund köllum í erlenda mynt kalli á slíka könnun.

„Og ef svo, þá ætti að vera auðvelt að koma slíku við. Það má alveg benda á að fólk getur engu að síður skipt seðlum hjá Arion í Leifsstöð án vandkvæða og þá virðist þetta ekki gilda þar. Hvernig sem á það er litið virðist þetta vera tilraun til samkeppnishindrana.“

Hann bendir á að bankarnir hafi fyrir sex árum síðan gert sátt við Sam­keppnis­eftir­litið um að þeir myndu grípa til að gerða til þess að auð­velda við­skipta­vinum að færa við­skipti sín annað.

„Þannig að ég myndi nú halda að það væri af­skap­lega á­huga­vert að fá álit Sam­keppnis­eftir­litsins á því hvernig þessar tálmanir sam­rýmist þessari sátt. Vegna þess að ef þú ætlar að auð­velda fólki að færa launa­reiknings­við­skipti sín en á sama tíma taka fyrir alla þjónustu, þá ertu í raun bara að hneppa fólk í fjötra.“

Haukur segist ekki telja það til­viljun að bankarnir setji á slíkar reglur eftir til­komu Indó á markaðinn. Til­gangur Indó á markaði sé að brjóta upp nú­verandi við­skipta­um­hverfi banka.

„Mér finnst það engin til­viljun að bankarnir byrji allir að gera þetta þegar þeir eru farnir að finna fyrir okkar til­vist og í stað þess að bregðast við með því að heita við­skipta­vinum sínum betri þjónustu og reyna að lokka þá, þá er frekar reynt að læsa þá inni. Mér finnst það al­gjör­lega út í hött.“

Útibú myndi henta fáum

Hefur það komið tals hjá ykkur að opna úti­bú til að þjónusta við­skipta­vini í þessari að­stöðu?

„Það hefur komið tals. En til þess að geta boðið betri kjör, til þess að sleppa færslu­gjöldum, gjald­eyris­á­lagi og öllum þessum bull­gjöldum sem bankarnir rukka þá þurfum við líka að vera ströng við okkur sjálf. Eitt af okkar prinsippum er að við viljum ekki bjóða þjónustu sem lítill hluti okkar við­skipta­vina getur nýtt sér sem er á sama tíma það dýr að allir við­skipta­vinirnir þurfi að borga fyrir það.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×