Golf

Blóðugar senur á risamóti kvenna í golfi um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mótmælendur settu líka svip sinn á lokahringinn eins sjá má hér þegar kylfingar forða sér.
Mótmælendur settu líka svip sinn á lokahringinn eins sjá má hér þegar kylfingar forða sér. Getty/Warren Little

Sænski kylfingurinn Linn Grant missti högg út fyrir braut með óheppilegum afleiðingum á risamóti kvenna í golfi um helgina.

Grant var að keppa á Opna breska mótinu hjá konum sem heitir AIG Women's Open á enskunni.

Hin 24 ára gamla Grant var þarna á fyrstu holu á lokahring mótsins. Hún var búinn með teighöggið en var þarna að slá með sjö járni inn á flötina.

Golfhögg Grant heppnaðist ekki betur en að kúlan flaug út fyrir braut og lenti í höfði á einum óheppnum eldri áhorfanda.

Það blæddi talsvert úr manninum sem fékk meðhöndlun á staðnum. Það sáust dramatískar myndir af honum með blóðugar umbúðir um höfðið. Fyrir utan blóðið þá virtist þó vera í lagi með hann.

Grant kom til mannsins og athugaði með hann.

Hún endaði á því að spila hringinn á 76 höggum eða fjórum höggum yfir pari. Alls lék hún hringina fjóra á tveimur höggum undir pari sem skilaði henni ellefta sætinu.

Hin bandaríska Lilia Vu vann mótið með talsverðum yfirburðum en hún lék hringina fjóra á fjórtán höggum undir pari. Vu endaði sex höggum á undan hinni ensku Charley Hull.

Vu er að gera frábæra hluti á þessu tímabili en þetta var annað risamótið sem hún vinnur á árinu. Hún vann líka Chevron Championship mótið í Texas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×