Viðskipti innlent

Júlí­mánuður sá stærsti í sögu Play

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Flugfélagið hóf göngu sína í júní árið 2021.
Flugfélagið hóf göngu sína í júní árið 2021. Vísir/Vilhelm

Nýtt met var slegið í sögu flugfélagsins Play í júlí. Sætanýting félagsins í mánuðinum nam 91 prósenti og voru farþegar nær 192 þúsund talsins. Þar af leiðandi er júlí stærsti mánuður flugfélagsins frá upphafi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play. Þar segir að júní hafi einnig verið metmánuður og farþegar verið 160 þúsund talsins. Þá nam stundvísi hjá flugfélaginu rúmlega áttatíu prósent í júlí. 

Í tilkynningunni segir að greina mátti mikla eftirspurn eftirspurn eftir flugferðum í Norður-Ameríku þar sem tekjur á farþega eru mun hærri en í fyrra. Sætanýting á áfangastaði Play í Norður-Ameríku væri níutíu prósent og sé bókunarstaðan góð á þeim mörkuðum á komandi mánuðum. 

Að auki megi sjá mikla eftirspurn frá áfangastöðum flugfélagsins í Evrópu á borð við Kaupmannahöfn, London, París og sólarlandaáfangastöðum sem voru með sætanýtingu yfir níutíu prósent í júlí.

Meira en helmingur Íslendinga flaug með Play

Þá kemur fram að í júlí árið 2022 hafi flugfélagið flutt 109 þúsund farþega, sem þýðir að aukning á farþegafjölda milli ára nemi 74 prósentum. Sætanýtingin hafi einnig aukist úr 87 prósentum í júlí 2022, í 91 prósent í júlí 2023.

Loks segir að í júní hafi 54 prósent Íslendinga sem ferðuðust frá Íslandi flogið með Play. „Þetta er skýrt merki um að PLAY er á góðri leið með að verða fyrsta val Íslendinga,“ segir í tilkynningu. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×