Jóhannes Þór ræddi átakið í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni. Verkefninu „Góðir gestgjafar“ var ýtt úr vör síðustu helgi af yfirvöldum og Samtökum ferðaþjónustunnar. Vefur á vegum verkefnisins var um leið opnaður og fólk hvatt til að búa til póstkort á vefnum til að deila skrifum um jákvæð áhrif ferðaþjónustunnar á þau sjálf og samfélagið í heild.
„Lykillinn hér er sá að það er ekki verið að segja við Íslendinga: „Verið nú góð við túristana!“ Það er ekki það sem þetta gengur út á. Það sem þetta gengur út á er að segja: Heyrðu við erum ótrúlega gestrisin, höldum því áfram því að fyrir það fáum við ýmis ótrúleg gæði sem samfélagið nýtur góðs af.“
Jóhannes segist skilja það vel að ákveðna þreytu sé farið að gæta meðal landsmanna vegna mikils fjölda ferðamanna og nefnir umræðuna um skemmtiferðaskip og mengun af völdum þeirra. Almennt séð séu Íslendingar hins vegar ótrúlega jákvæðir gagnvart ferðaþjónustu.
„Það er ekki bara hlutverk gestgjafans að taka á móti eins mörgum og við getum til að fá eins mikið af peningum og við getum. Hlutverkið er ekki síður að passa upp á það að upplifun gestsins sem kemur eftir 2 eða 3 eða 10 ár sé jafn góð eða helst betri og þess sem kom í gær,“ segir Jóhannes.