Viðskipti innlent

Hreyfli ekki heimilt að banna bíl­stjórum að aka fyrir Hopp

Eiður Þór Árnason skrifar
Samkeppniseftirlitið telur Hreyfil vera með markaðsráðandi stöðu.
Samkeppniseftirlitið telur Hreyfil vera með markaðsráðandi stöðu. Vísir/Egill

Leigubifreiðastöðinni Hreyfli var óheimilt að banna leigubílstjórum sem keyra fyrir stöðina að skrá sig hjá Hopp. Þetta er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins sem hefur gert Hreyfli að láta af háttsemi sinni án tafar. Telur eftirlitið að háttsemin grundvallist hvorki á málefnalegum né hlutlægum forsendum og sé sennilega brot á samkeppnislögum.

Svo hljóðar bráðabirgðaákvörðun stofnunarinnar sem telur að háttsemi Hreyfils hafi verið til þess fallin að hindra innkomu nýs keppinautar á markaðinn, neytendum til tjóns. Þá hafi aðgerðirnar viðhaldið þeim takmörkunum sem nýjum lögum um leigubifreiðaakstur væri ætlað að uppræta. 

Að sögn stofnunarinnar hefur Hreyfill frá því að Hopp hóf starfsemi á leigubílamarkaði í vor haft reglur í samþykktum sínum og stöðvarreglum sem útilokuðu félagsmenn frá því að nýta sér aðra þjónustu á markaði sem þeim stæði til boða.

Hafi virt fyrri tilmæli að vettugi

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Samkeppniseftirlitið hefur afskipti af Hreyfli en samsvarandi háttsemi var tekin til skoðunar árið 2020 í tengslum við félagið Drivers ehf.

„Beindi Samkeppniseftirlitið þá tilmælum til Hreyfils að láta af háttseminni, sem bryti líklega gegn 11. gr. samkeppnislaga. Athugun þessa máls hefur leitt í ljós að Hreyfill hefur virt fyrrgreind tilmæli Samkeppniseftirlitsins að vettugi,“ segir á vef stofnunarinnar.

Hreyfill hafi lengi verið stærsta leigubifreiðastöð landsins með flesta leigubifreiðastjóra og „gríðarlegan efnahagslegan styrk“ umfram keppinauta. 

Samkeppniseftirlitið beinir þeim fyrirmælum til Hreyfils að gera breytingar á reglum og samþykktum sem hamli eða banni leigubílstjórum að nýta jafnframt þjónustu annarra aðila. Þá skuli tilkynna leigubílstjórum sem keyra fyrir Hreyfil um niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og að þeim sé heimilt að nýta þjónustu annarra aðila. 

Framkvæmdastjórar Hreyfils og Hopp leigubíla hafa deilt um það á opinberum vettvangi hvort ný lög um leigubílaakstur banni bílstjórum að vera skráðir á fleiri en einni leigubifreiðastöð. 

Samgöngustofa hefur eftir­lit með því hvort starf­semi leigubifreiðaleyfis­hafa sé í sam­ræmi við lög og reglu­gerðir. Stofnunin hefur ekki tekið afstöðu í máli Hreyfils og Hopp leigubíla og sagt að hún hlutist ekki til um starfs­reglur ein­stakra leyfis­hafa á leigu­bíla­markaði á meðan þær rúmist innan laga og reglna. 

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Mun ekki bregðast við reglum Hreyfils um akstur með Hopp

Sam­göngu­stofa hlutast ekki til um starfs­reglur ein­stakra leyfis­hafa á leigu­bíla­markaði á meðan þær rúmast innan laga og reglna. Stofnunin mun því ekki bregðast við á­kvörðun Hreyfils um að meina bíl­stjórum sínum um að skrá sig hjá Hopp Leigu­bílum.

Spyr hvort Hreyfli sé heimilt að meina bíl­stjórum að skrá sig hjá Hopp

Fram­kvæmda­stjóri Hopp Leigubíla segist ekki rang­túlka lög um leigu­bíla líkt og fram­kvæmda­stjóri Hreyfils hefur haldið fram. Stöðva­skylda sem fram­kvæmda­stjórinn vísi til hafi breyst og nú megi leigu­bíl­stjórar vera skráðir á fleiri en einni stöð og vera sjálf­stætt starfandi. Hún spyr sig hvort Hreyfill megi í raun meina bíl­stjórum sínum að skrá sig hjá Hopp.

Bíl­stjórar Hreyfils megi ekki aka fyrir Hopp

Fram­kvæmda­stjóri Hreyfils segir að fyrir­tækið sam­þykki ekki að leigu­bíl­stjórar sem hafi stöð­var­pláss á Hreyfli keyri fyrir aðrar stöðvar líkt og Hopp á sama tíma. Hann segir fram­kvæmda­stjóra Hopp rang­túlka lög um leigu­bíla.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×