Viðskipti innlent

Gríðar­legur halli á vöru­við­skiptum í júní

Árni Sæberg skrifar
Mikið var flutt inn af vörum í júní.
Mikið var flutt inn af vörum í júní. Vísir/Vilhelm

Vöruviðskipti við útlönd voru óhagstæð um 43,1 milljarð króna í júní. Það er 25,3 milljarða króna meiri halli en á sama tíma í fyrra.

Fluttar voru út vörur fyrir 76,7 milljarða króna í júní 2023 og inn fyrir 119,8 milljarða króna samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að vöruskiptajöfnuður síðustu tólf mánaða hafi verið óhagstæður um 368,8 milljarða króna, sem sé 144,8 milljarða króna óhagstæðari jöfnuður en á tólf mánaða tímabili ári fyrr.

Inn- og útflutningur eykst

Verðmæti vöruútflutnings í júní 2023 hafi verið 9,9 milljörðum króna minna en í júní 2022, farið úr 86,6 milljörðum króna í 76,7 milljarða.

Hins vegar hafi verðmæti vöruútflutnings á tólf mánaða tímabili verið 989,8 milljarða króna og aukist um 93,7 milljarða króna miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 10,5 prósent á gengi hvors árs. 

Iðnaðarvörur hafi verið 56 prósent alls vöruútflutnings og verðmæti þeirra aukist um 9,9 prósent samanborið við tólf mánaða tímabil ári fyrr. Sjávarafurðir hafi verið 36 prósent alls vöruútflutnings en verðmæti þeirra aukist um 11,6 prósent í samanburði við tólf mánaða tímabil ári fyrr.

Verðmæti vöruinnflutnings hafi hins vegar numið 119,8 milljörðum króna í júní 2023 samanborið við 104,4 milljarða í júní 2022 og hækkað því um 15,4 milljarða króna, eða um 14,8 prósent. 

Verðmæti fjárfestingarvara utan flutningstækja hafi numið 27,9 milljörðum króna sem sé aukning um 5,5 milljarða króna, eða tæplega fjórðungsaukning. Verðmæti hrá- og rekstrarvöru hafi numið 34,8 milljörðum króna og aukist um 6,5 milljarða og verðmæti eldsneytis og smurolíu numið 12,4 milljörðum og aukist um 1,4 milljarða króna samanborið við júní 2022.

Verðmæti vöruinnflutnings á tólf mánaða tímabili hafi verið 1.358,6 milljarðar króna og aukist um 238,5 milljarða miðað við tólf mánaða tímabil ári fyrr eða um 21,3 prósent á gengi hvors árs fyrir sig. Aukningin hafi verið mest í eldsneyti, hrá- og rekstrarvörum og fjárfestingavörum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×