Körfubolti

Tinda­stóll tekur þátt í Evrópu­bikar FIBA

Smári Jökull Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij og lærisveinar hans taka þátt í Evrópukeppni á næsta tímabili.
Pavel Ermolinskij og lærisveinar hans taka þátt í Evrópukeppni á næsta tímabili. Vísir/Vilhelm

Íslandsmeistarar Tindastóls í körfuknattleik hafa ákveðið að taka þátt í Evrópukeppni á næsta tímabili. Þetta kemur fram í tilkynningu sem körfuknattleiksdeild Tindastóls sendi frá sér.

Tindastóll varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í vor eftir stórkostlegt úrslitaeinvígi gegn Val. Stjórn körfuknattleiksdeildar félagsins hefur nú ákveðið að skrá liðið til leiks í Evrópubikar FIBA en í tilkynningu félagsins segir að það sé neðri deildin af tveimur Evrópukeppnum Körfuknattleikssambands Evrópu.

Í tilkynningunni segir einnig að reikna megi með að félagið fari í gegnum forkeppni líkt og Þór frá Þorlákshöfn gerði í fyrra en alls eru 32 lið sem komast í riðlakeppnina.

Fyrirkomulag forkeppninnar er með þeim hætti að hún fer fram á fjórum stöðum og þurfa liðin að vinna sigur í þremur leikjum til að komast í riðlakeppni. Ekki er komið á hreint hvar Tindastóll mun spila í forkeppninni en dregið verður í keppnina í lok ágúst.

„Þó margt sé óráðið enn er ljóst að það eru spennandi tímar framundan hjá liði Tindastóls og það hlýtur að hafa verið draumur margra leikmanna að taka þátt í Evrópukeppni með Stólunum,“ segir jafnframt í tilkynningu Stólanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×