Viðskipti innlent

Kaupa um tvö­falt meira af lyfjum, heilsu- og snyrti­vörum er­lendis

Eiður Þór Árnason skrifar
Netverslun færist sífellt í aukanna hjá íslenskum neytendum.
Netverslun færist sífellt í aukanna hjá íslenskum neytendum. EPA/FREDDY CHAN

Íslendingar versluðu í erlendum netverslunum fyrir 2,6 milljarða króna í maímánuði sem nemur 31,4% aukningu milli ára. Tæplega helmingur af innkaupunum eða rúmlega 1,2 milljarðar króna voru verslaðar í erlendum fataverslunum á netinu.

Þetta sýna tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar (RSV) sem byggja á gögnum frá Tollsviði Skattsins. Fram kemur í tilkynningu frá RSV að kaup Íslendinga í flokknum lyf, heilsu- og snyrtivörur hafi jafnframt stóraukist í maí eða um 90,6% milli ára. Þá hafa áfengiskaup erlendis frá dregist saman um 14,6% milli ára samhliða auknu framboði áfengis í innlendum netverslunum.

Rólegra í apríl

Erlend netverslun dróst saman um 13,2% milli mars og apríl 2023 en síðan mælingar RSV hófust hafa Íslendingar eytt minnst þar í þessum tveimur mánuðum. Í apríl 2022 eyddu Íslendingar 1,48 milljarði króna í erlendum netverslunum en í apríl 1,72 milljarði króna. Í apríl var 77,4% aukning á milli ára í kaupum erlendis frá á lyfja-, heilsu- og snyrtivörum.

Gögnin eru unnin upp úr upplýsingum frá innlendum tollmiðlurum, Íslandspósti og öðrum fyrirtækjum sem vitað er til að flytji inn pantanir einstaklinga frá erlendum netverslunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×