Innherji

Yfir­maður fyrir­tækja­ráð­gjafar Ís­lands­banka lætur af störfum

Hörður Ægisson skrifar
Atli Rafn Björnsson hefur verið forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka frá því í ársbyrjun 2019 en Ellert Hlöðversson, sem hefur stýrt verðbréfamiðlun bankans í tæplega eitt ár, mun núna taka við hans starfi.
Atli Rafn Björnsson hefur verið forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar Íslandsbanka frá því í ársbyrjun 2019 en Ellert Hlöðversson, sem hefur stýrt verðbréfamiðlun bankans í tæplega eitt ár, mun núna taka við hans starfi.

Atli Rafn Björnsson, sem hefur stýrt fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka frá árinu 2019, hefur látið af störfum en hann er þriðji stjórnandinn sem hættir eftir að félagið samþykkti að greiða tæplega 1,2 milljarða sektargreiðslu vegna brota á lögum og innri reglum sínum við sölu á hlutum í sjálfum sér í útboði bankans í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum Innherja mun Ellert Hlöðversson, sem hefur verið yfir verðbréfamiðlun Íslandsbanka frá því síðasta haust, taka núna við starfi Atla Rafns sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar. Áður starfaði Ellert um margra ára skeið sem verkefnastjóri í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka þar sem hann leiddi útboð og skráningu fjölda félaga í Kauphöllinni, meðal annars frumútboð Íslandsbanka um sumarið 2021.

Fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun Íslandsbanka voru á meðal umsjónaraðila við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum í marsmánuði á liðnu ári.

Samkvæmt ítarlegri sátt Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabankans, sem birt snemma síðasta mánudagsmorgun, voru talin upp fjölmörg atriði þar sem bankinn var talinn hafa brotið lög og innri reglur sínar við framkvæmd útboðsins. Þannig hafi hann hvorki framkvæmt né skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefni sitt við söluferlið og sömuleiðis ekki gert allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna.

Síðastliðinn miðvikudag var tilkynnt um það að samið hefði verið um starfslok Birnu Einarsdóttur sem bankastjóra og var Jón Guðni Ómarsson, fjármálastjóri Íslandsbanka frá árinu 2011, samhliða því ráðinn sem nýr bankastjóri. Þremur dögum síðar var greint frá því að Ásmundur Tryggvason, framkvæmdastjóri fyrirtækja og fjárfesta síðustu ár, hefði sömuleiðis látið af störfum en við hans starfi tekur Kristín Hrönn Guðmundsdóttir en hún hefur verið forstöðumaður fjármála, reksturs og stefnumótunar á því sviði sem hún núna tekur við. 

Brotthvarf þeirra kemur eftir verulegan þrýsting úr röðum ráðherra ríkisstjórnarinnar sem sögðu stjórnendur bankans ekki njóta trausts og þeir þyrftu að axla ábyrgð á brotum bankans við söluferlið. Bankasýslan, sem heldur utan um 42,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum, fór sömuleiðis fram á hluthafafund þar sem stjórn og stjórnendur bankans geri grein fyrir málinu og þeim ráðstöfunum sem gripið verður til í því skyni að endurvekja traust. Sá fundur fer fram 28. júlí næstkomandi og þar stendur einnig til halda kosningu til stjórnar bankans.

Þá var samrunaviðræðum Kviku banka og Íslandsbanka, sem höfðu staðið yfir í nærri fimm mánuði, slitið síðasta fimmtudag. Taldi stjórn Kviku ekki lengur forsendur til þess að halda áfram þeim viðræðum. Vísaði hún þar til „atburða síðustu daga“ og til væntanlegs hluthafafundar og stjórnarkjörs.

„Þó er ljóst að ávinningur af samruna félaganna gæti orðið verulegur og hefur stjórn Kviku lýst yfir vilja sínum til þess að hefja viðræður að nýju ef forsendur skapast,“ sagði í tilkynningunni sem Kvika sendi frá sér.


Tengdar fréttir

Ás­mundur Tryggva­son hættur hjá Ís­lands­banka

Ásmund­ur Tryggva­son, fram­kvæmda­stjóri á sviði fyr­ir­tækja og fjár­festa hjá Íslands­banka, hef­ur ákveðið að stíga til hliðar. Krist­ín Hrönn Guðmunds­dótt­ir hef­ur verið ráðin í hans stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×