Innherji

Hlutabréfaverð ISB réttir úr kútnum við brotthvarf Birnu

Hörður Ægisson skrifar
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um meira en þrjú prósent í Kauphöllinni í morgun.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um meira en þrjú prósent í Kauphöllinni í morgun. Vilhelm Gunnarsson

Gengi hlutabréfa Íslandsbanka, sem hafði fallið skarpt fyrstu tvo daga vikunnar, hefur hækkað um meira en þrjú prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöllinni í morgun. Gengishækkunin kemur í kjölfar þess tilkynnt var um það fyrr í nótt að samið hefði verið um starfslok Birnu Einarsdóttur eftir að bankinn braut fjölmörg lög og innri reglur félagsins við sölu á hlutum í sjálfum í útboði ríkisins í fyrra.

Hlutabréfaverð Íslandsbanka stendur núna í 114 krónum á hlut og hefur hækkað um rúmlega prósent í samtals 40 milljóna króna veltu með bréf félagsins.

Gengi bréfa bankans hafði fyrir opnun markaða í dag lækkað um liðlega sex prósent í vikunni og við það þurrkast út um 14 milljarðar af markaðsvirði bankans. Hlutabréfaverðið fór niður í 110 krónur á hlut við lokun markaða í gær og hafði – án þess að tillit sé tekið til arðgreiðslna á tímabilinu – ekki verið lægra í tæplega tvö ár.

Samkvæmt ítarlegri sátt Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabankans, sem birt snemma síðasta mánudagsmorgun, voru talin upp fjölmörg atriði þar sem bankinn var talinn hafa brotið lög og innri reglur sínar við framkvæmd útboðsins. Þannig hafi hann hvorki framkvæmt né skjalfest greiningu á hagsmunaárekstrum í tengslum við verkefni sitt við söluferlið og sömuleiðis ekki gert allar viðeigandi ráðstafanir til að greina og koma í veg fyrir eða takast á við hagsmunaárekstra vegna þátttöku starfsmanna. Þá var stjórn bankans talin hafa sýnt af sér athafnaleysi og að stjórnarhættir innan Íslandsbanka bæru vott um skort áhættuvitund.

Í tilkynningu sem var send til Kauphallarinnar rétt fyrir klukkan fjögur í nótt var greint frá því að stjórn Íslandsbanka hefði komist að samkomulagi við Birnu um starfslok og samhliða því ráðið Jón Guðna Ómarsson í hennar stað sem bankastjóri. Jón Guðni hefur verið framkvæmdastjóri fjármála bankans samfellt frá árinu 2011.

Samkvæmt heimildum Innherja kom stjórn Íslandsbanka saman til fundar upp úr klukkan fjögur síðdegis í gær. Sá fundur stóð lengi yfir en tilkynning um starfslok Birnu birtist nærri tólf klukkutímum síðar.

Brotthvarf Birnu úr stóli bankastjóra kemur eftir verulegan þrýsting úr röðum ráðherra ríkisstjórnarinnar sem sögðu stjórnendur bankans ekki njóta trausts og þeir þyrftu að axla ábyrgð á brotum bankans við söluferlið. Bankasýslan, sem heldur utan um 42,5 prósenta hlut ríkisins í bankanum, hefur farið fram á að haldin verður hluthafafundur þar sem stjórn og stjórnendur bankans geri grein fyrir málinu og þeim ráðstöfunum sem gripið verður til í því skyni að endurvekja traust.

Í tilkynningu sem Birna sendi frá sér sagðist hún hafa ákveðið að stíga til hliðar „með hagsmuni bankans að leiðarljósi“. Segist hún gera það til að „ró geti myndast vegna sáttar Íslandsbanka við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands“.

Með þessu segist Birna axla ábyrgð á sínum þætti málsins.

„Umræðan hefur verið óvægin og ýmsum stjórnmálamönnum hefur verið tíðrætt um afsögn mína. Ég óska þeim velfarnaðar í þeirra störfum,“ sagði hún ennfremur.

Birna segist yfirgefa Íslandsbanka með trega, enda hafi hún helgað bankanum nánast alla starfsævi sína. Sáttin við fjármálaeftirlitið snúi eingöngu að einu verkefni, að öðru leyti hafi ferill hennar verið farsæll.

„Undir minni stjórn, sem bankastjóri, hefur eigið fé bankans aukist um næstum 150 milljarða auk þess sem ríflega 110 milljarðar hafa verið greiddir í arð til hluthafa,“ er haft eftir henni.


Tengdar fréttir

Brotin geti haft mikið að segja um orð­spor Ís­lands­banka

Það að Íslandsbanki hafi hvorki greint hagsmunaárekstra með fullnægjandi hætti né tryggt að þeir sköðuðu ekki hagsmuni viðskiptavina þegar bankinn seldi hluti í sjálfum sér er ein af stærstu orðsporsáhættum bankans í sáttinni við fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Þetta segir Andri Fannar Bergþórsson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, lögmaður hjá Advel lögmönnum og fyrrverandi nefndarmaður í fjármálaeftirlitsnefnd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×