Viðskipti innlent

Verslanir Iceland munu brátt heyra sögunni til á Ís­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Verslun Iceland í Glæsibæ í Reykjavík.
Verslun Iceland í Glæsibæ í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Verslanir sem reknar eru undir merkjum Iceland munu hverfa af markaðnum hér á landi á næstu mánuðum.

Þetta staðfestir Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri verslunar- og mannauðssviðs Samkaupa. Hún segir að Iceland í Engihjalla í Kópavogi muni breytast í Nettó-verslun á morgun.

Fjórar verslanir til viðbótar eru reknar undir merkjum Iceland á höfuðborgarsvæðinu – í Glæsibæ, Vesturbergi í Breiðholti, Seljabraut í Reykjavík og Staðarbergi í Hafnarfirði.

Verslun Iceland í Engihjalla hefur verið breytt í Nettó-verslun.Vísir/Vilhelm

„Með tíð og tíma munu þessar verslanir einnig breytast í Nettó-verslanir og gerum ráð fyrir það þær breytingar muni standa fram á næsta ár. Vinsælustu Iceland-vörumerkin muni þó áfram vera í sölu í verslunum okkar, það er Nettó, Kjörbúð og Krambúð,“ segir Gunnur Líf.

Gunnur segir að með breytingunum sé ætlunin að auka einfaldleika og tryggja viðskiptavinum lægra verð í sinni hverfisverslun. „Við erum mjög spennt fyrir þessari breytingum,“ segir Gunnur Líf sem bætir við að þær munu ekki hafa áhrif á starfsfólk sem muni allt halda störfum sínum.

Verslunarmaðurinn Jóhannes Jónsson, sem kenndur var við Bónus, opnaði fyrstu Iceland-verslunina hér á landi árið 2012.

Fyrsta Iceland-verslunin opnaði árið 2012.Vísir/Vilhelm

Fleiri fréttir

Sjá meira


×