Golf

Hola í höggi í fyrsta sinn hjá Rory

Smári Jökull Jónsson skrifar
Rory McIlroy sáttur eftir að hafa farið holu í höggi.
Rory McIlroy sáttur eftir að hafa farið holu í höggi. Vísir/Getty

Rory McIlroy gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi í fyrsta sinn á PGA-mótaröðinni í kvöld. Hann náði högginu á Travelers Championship mótinu í Connecticut.

Rory McIlroy hefur leikið á PGA-mótaröðinni í fjölmörg ár en hann vann sinn fyrsta sigur á þar árið 2010 en alls hefur hann fagnað sigri á tuttugu og þremur mótum á mótaröðinni.

Hann hefur hins vegar aldrei náð því að fara holu í höggi á mótaröðinni - fyrr en í kvöld. Hann náði draumahögginu á áttundu holu á Travelers Championship mótinu í Connecticut í Bandaríkjunum.

Brautin er tæpir 200 metrar að lengd og náði Rory högginu á fyrsta hring mótsins.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Rory nær að fara holu í höggi a ferlinum því hann náði því árið 2015 á HSBC meistaramótinu í Abu Dhabi en það mót var ekki hluti af PGA-mótaröðinni.

Fyrsti hringur Rory á mótinu var ansi skrautlegur. Hann lauk hringum á tveimur undir pari, náði fimm fuglum fyrir utan ásinn sem hann fékk á áttundu braut en spilaði fimm holur yfir pari.

Bandaríkjamaðurinn Denny McCarthy er efstur á níu höggum undir pari eftir fyrsta hringinn en Keegan Bradley er í öðru sæti einu höggi á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×