Körfubolti

Nikola Jokic í leik­manna­hópi Serbíu fyrir HM í sumar

Siggeir Ævarsson skrifar
Nikola Jokic er í leikmannahópi Serbíu fyrir HM í sumar, enn sem komið er í það minnsta.
Nikola Jokic er í leikmannahópi Serbíu fyrir HM í sumar, enn sem komið er í það minnsta.

Það hefur verið töluvert álag á Nikola Jokic leikmann Denver Nuggets undanfarið. Þrátt fyrir að hafa leikið 89 leiki í vetur er hann ekki laus allra mála. Framundan er heimsmeistaramót í lok ágúst og er Jokic á leikmannalista Serbíu.

Það er allur gangur á því hvort evrópskir leikmenn í NBA taki þátt í landsliðverkefnum. Undankeppni HM fer oftast að mestu fram yfir veturinn meðan að deildin er í gangi og því lítið um stjörnufans á því stigi. En í lokakeppninni má oft sjá stjörnunum bregða fyrir.

Svetislav Pesic, landsliðsþjálfari Serbíu, var með einfalt svar þegar hann var spurður á dögunum hvort Jokic yrði með í águst: „Hann er á leikmannalistanum eins og aðrir.“ - Afgerandi svar en á sama tíma loðið. Lokaákvörðunin er í höndum Jokic, en þessa stundina virðist hann fyrst og fremst vera með hugann við að komast í frí.

Jokic hefur leikið reglulega með landsliði Serbíu en tók sér hlé eftir HM 2019. Hann kom svo aftur inn í liðið í fyrra í undankeppni HM og körfuboltaunnendur um allan heim vonast eflaust eftir því að hann taki þátt í lokakeppninni.

Heimsmeistaramótið í körfubolta 2023 hefst þann 25. ágúst en leikið verður í þremur löndum, Filipseyjum, Indónesíu og Japan. Úrslitaleikur mótsins verður 10. september. NBA deildin hefst svo 18. október, svo að Jokic ætti að hafa nægan tíma til að hreinsa hugann og kjarna sig fyrir næsta tímabil þarna á milli. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×