Handbolti

Gísli Þor­geir sneri aftur þegar Mag­deburg tryggði sér Meistara­deildar­sæti

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson er kominn aftur á völlinn eftir meiðsli.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er kominn aftur á völlinn eftir meiðsli. Vísir/Getty

Gísli Þorgeir Kristjánsson sneri nokkuð óvænt aftur á völlinn með Magdeburg þegar liðið vann öruggan sigur á Stuttgart á heimavelli í dag. Magdeburg eygir enn von um þýska titilinn.

Gísli Þorgeir meiddist á ökkla í byrjun maímánuðar og var búist við að hann yrði frá keppni út tímabilið. Magdeburg átti þá í harðri baráttu um þýska titilinn sem og sæti í undanúrslitaeinvígi Meistaradeildarinnar og meiðsli Gísla Þorgeirs töluvert áfall, ekki síst í ljósi þess að Ómar Ingi Magnússon spilar ekki meira með á tímabilinu vegna meiðsla.

Það kom því nokkuð á óvart þegar Magdeburg tilkynnti fyrir leikinn gegn Stuttgart í dag að Gísli Þorgeir væri í leikmannahópi liðsins. Hann kom við sögu strax í fyrri hálfleik og var ekki lengi að setja mark sitt á leikinn.

Sigur Magdeburg í dag var þægilegur og liðið náði meðal annars tíu marka forskoti í síðari hálfleik. Gísli Þorgeir skoraði þrjú mörk í 31-27 sigri og Magdeburg nú búið að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð. 

Hinn slóvenski Marko Bezjak var hylltur af stuðningsmönnum Magdeburg í lok leiks og fékk að skora síðasta mark leiksins þar sem varnarmenn Stuttgart hleyptu honum í gegnum vörnina. Bezjak var að leika sinn síðasta heimaleik fyrir Magdeburg eftir langan feril.

Magdeburg eygir ennþá von um að skáka Kiel í baráttunni um þýska titilinn. Sú von er þó veik því liðið er tveimur stigum á eftir Kiel í töflunni og með töluvert lakara markahlutfall þegar aðeins ein umferð er eftir af deildakeppninni.

Lærisveinar Heiðmars með góðan sigur

Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í dag. Sveinn Jóhannsson skoraði þrjú mörk fyrir Minden sem tapaði 32-19 á útivelli gegn Hannover-Burgdorf. Minden er fallið úr deildinni en Aðalsteinn Eyjólfsson tekur við þjálfun liðsins að tímabilinu loknu. Heiðmar Felixson er þjálfari Hannover-Burgdorf sem er í sjötta sæti þýsku deildarinnar.

Ólafur Stefánsson og lærisveinar hans í Erlangen töpuðu 33-28 á heimavelli gegn Flensburg. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg sem er í fjórða sæti deildarinnar og búið að tryggja sér Evrópusæti. Erlangen er í þrettánda sæti.

Þá mætti Íslendingalið Gummersback liði Göppingen á heimavelli. Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersback sem hefur gert góða hluti á tímabilinu sem nýliðar í deildinni. Gummersback vann góðan 35-32 heimasigur og er í tíunda sæti deildarinnar.

Elliði Snær Viðarsson skoraði fjögur mörk fyrir Gummersback í dag en Hákon Daði Styrmisson komst ekki á blað.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.