Handbolti

Undra­verður bati Gísla sem af­sannaði orð Mag­deburg

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson er búinn að jafna sig af meiðslum, á afar skömmum tíma.
Gísli Þorgeir Kristjánsson er búinn að jafna sig af meiðslum, á afar skömmum tíma. Getty/Eroll Popova

Þvert á það sem að þýska handknattleiksfélagið Magdeburg hafði sagt fyrir mánuði síðan er tímabilinu ekki lokið hjá landsliðsmanninum Gísla Þorgeiri Kristjánssyni. Hann getur því verið með um Final Four helgina í Köln, þegar úrslitin ráðast í Meistaradeild Evrópu.

Gísli er í leikmannahópi Magdeburgar sem mætir Stuttgart í dag í næstsíðasta leik sínum í þýsku 1. deildinni.

Gísli fór sárþjáður af velli í leik gegn Wisla Plock 10. maí, í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu, og á miðlum Magdeburgar var greint frá því að tímabilinu væri lokið hjá Gísla. Skoðun  hefði nefnilega leitt í ljós að bein í ökkla hefði brotnað.

Í dag bárust hins vegar mun betri fréttir af Gísla sem er byrjaður að æfa með Magdeburg á nýjan leik, og þurfti aðeins fjórar vikur til þess að jafna sig. Hann mun hafa notið mikillar sjúkrameðferðar í nokkrar klukkustundir á dag til að ná bata, og hefur nú fengið grænt ljós á að æfa og spila.

Meiðsli hafa leikið lið Magdeburgar grátt og er Ómar Ingi Magnússon eftir sem áður á meiðslalistanum.

Ef Magdeburg vinnur í dag og gegn Wetzlar í lokaumferðinni á sunnudag á liðið veika von um að verða Þýskalandsmeistari en þarf þá að treysta á að Kiel tapi gegn Göppingen í lokaumferðinni.

Magdeburg mætir svo Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 17. júní, og dæma þeir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson leikinn. Sigurliðið mætir svo PSG eða Kielce í úrslitaleik degi síðar, en tapliðin spila um brons.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×