Körfubolti

Jókerinn er ekkert að grínast: Þrenna og sigur í fyrsta úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nikola Jokic var frábær í öruggum sigir Denver Nuggets á Miami Heat í úrslitaeinvígi NBA í nótt.
Nikola Jokic var frábær í öruggum sigir Denver Nuggets á Miami Heat í úrslitaeinvígi NBA í nótt. AP/Jack Dempsey

Nikola Jokic fór á kostum þegar Denver Nuggets vann í nótt fyrsta leikinn í úrslitaeinvíginu á móti um meistaratitilinn í NBA deildinni í körfubolta.

Þetta var ekki aðeins fyrsti leikurinn í þessu úrslitaeinvígi heldur einnig fyrsti leikur Denver Nuggets í lokaúrslitum í 47 ára sögu félagsins og fyrsti leikur Jokic á stærsta sviðinu.

Denver vann leikinn örugglega 104-93 en skyttur Miami voru ískaldar í leiknum og hittu aðeins úr 41 prósent skota sinna í leiknum.

Hinn magnaði Jóker var með 27 stig, 14 stoðsendingar og 10 fráköst í leiknum en hann tók bara tólf skot utan af velli og hitti úr átta þeirra. Jokic varð aðeins annar leikmaðurinn á síðustu 25 árum sem nær að gefa tíu stoðsendingar í fyrri hálfleik í lokaúrslitaleik en hinn var LeBron James árið 2017.

Jamal Murray skoraði 26 stig og Aaron Gordon bætti við 16 stigum. Michael Porter Jr. skoraði 14 stig en Denver var aðeins undir í 34 sekúndur í leiknum og náði mest 24 stiga forkosti.

Nuggets vann fyrsta leikhluta með níu stigum (29-20) og var síðan komið sautján stigum yfir í hálfleik, 59-42. Eftir þriðja leikhlutann var munurinn kominn yfir tuttugu stig en Miami lagaði stöðuna aðeins í lokin.

Bam Adebayo skoraði 26 stig og tók 13 fráköst fyrir Miami Heat, Gabe Vincent var með 19 stig og Haywood Highsmith skoraði 18 stig á 23 mínútum af bekknum.

Hetja liðsins, Jimmy Butler, var hins vegar aðeins með þrettán stig og hitti bara úr 6 af 14 skotum sínum.

Annar leikurinn fer líka fram í Denver eins og þessi og verður hann á sunnudaginn.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.