Handbolti

Aron lék ekki þegar Álaborg fór illa að ráði sínu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson er að glíma við meiðsli.
Aron Pálmarsson er að glíma við meiðsli. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson kom ekkert við sögu hjá Álaborg þegar liðið beið lægri hlut gegn GOG í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn í handknattleik.

GOG eru ríkjandi meistarar en lið Álaborgar hefur á að skipa gríðarsterku liði. Álaborg sló Fredericia úr leik í undanúrslitunum á meðan GOG lagði Skjern og komst þannig í úrslit.

Álaborg byrjaði leikinn mun betur. Liðið var komið fjórum mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleikinn og leiddi 17-11 í hálfleik. Í síðari hálfleik átti GOG hins vegar frábæra endurkomu. 

Smátt og smátt saxaði liðið á forskot heimamanna og munurinn var kominn niður í eitt mark í stöðunni 19-18 snemma í seinni hálfleik. Þeim tókst að jafna í 26-26 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir og lokasekúndurnar voru æsispennandi.

GOG komst í forystu þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en Henrik Mölgaard jafnaði fyrir Álaborg. Hinn sænski Jerry Tollbring skoraði hins vegar síðasta mark leiksins úr víti þegar um 40 sekúndur voru eftir og tryggði GOG góðan útisigur.

GOG er því komið með forystu í úrslitaeinvíginu en liðin mætast næst á heimavelli GOG. Aron Pálmarsson hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu og kom ekkert við sögu hjá Álaborg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×