Handbolti

Hafnaði Íslandi til að taka við Flensburg

Sindri Sverrisson skrifar
Nicolej Krickau hefur gert stórgóða hluti sem þjálfari GOG eftir að hafa tekið við liðinu árið 2017.
Nicolej Krickau hefur gert stórgóða hluti sem þjálfari GOG eftir að hafa tekið við liðinu árið 2017. EPA-EFE/Claus Fisker

Danski handknattleiksþjálfarinn Nicolej Krickau verður næsti þjálfari þýska stórliðsins Flensburg eftir hafa stýrt dönsku meisturunum í GOG síðustu ár.

Þetta fullyrðir danski miðillinn TV 2 sem segir aðeins tímaspursmál hvenær hinn 36 ára gamli Krickau verði kynntur til leiks hjá Flensburg, sem áður hafði einnig tryggt sér dönsku landsliðsmennina Simon Pytlick og Lukas Jörgensen frá GOG. Krickau kemur í stað Maik Machulla sem var rekinn fyrir þremur vikum.

Krickau hafði áður verið orðaður við starf landsliðsþjálfara Íslands, en það var rétt áður en Machulla var endanlega látinn taka pokann sinn.

Í frétt TV 2 segir að samkvæmt upplýsingum miðilsins hafi Krickau afþakkað að stýra íslenska landsliðinu vegna þess að það passaði ekki með því að vera aðalþjálfari hjá Flensburg.

Forráðamenn HSÍ vinna enn í því að landa nýjum landsliðsþjálfara nú þegar 83 dagar eru liðnir frá viðskilnaðinum við Guðmund Guðmundsson.

Sambandið hefur átt í viðræðum við Snorra Stein Guðjónsson, þjálfara Vals, um að taka við landsliðinu en þær viðræður virðast einhverra hluta vegna hafa dregist á langinn.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, vildi ekkert tjá sig um landsliðsþjálfaramál þegar eftir því var leitað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×