Viðskipti innlent

„Enginn að leika sér að veiða þessi dýr svo að þau þjáist“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vilhjálmur Birgisson segir áframhaldandi hvalveiðar gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulíf á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit.
Vilhjálmur Birgisson segir áframhaldandi hvalveiðar gríðarlegt hagsmunamál fyrir atvinnulíf á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Vísir/Vilhelm

For­maður Verka­lýðs­fé­lags Akra­ness segir það gríðar­legt hags­muna­mál að Hvalur hf. fái að halda á­fram hval­veiðum sínum næstu árin. Að meðal­tali hafi 90 starfs­menn Hvals verið fé­lags­menn í verka­lýðs­fé­laginu á síðustu ver­tíð. Hann spyr sig hvaða veiðar skuli næst banna á grund­velli dýra­verndunar­sjónar­miða.

„Þetta eru yfir 120 manns sem störfuðu við veiðar og vinnslu á síðustu ver­tíð og ég sé bara að meðal­laun per mánuð er 1,7 milljón hjá verka­manni. Ég geri mér reyndar grein fyrir því að það er mikið vinnu­fram­lag á bak­við það,“ segir Vil­hjálmur Birgis­son í sam­tali við Vísi.

Hann segir hags­munina sem fólgnir séu í hval­veiðum gífur­lega fyrir Vestur­land. Níutíu fé­lags­menn í Verka­lýðs­fé­laginu á Akra­nesi hafi starfað hjá Hvali á síðustu ver­tíð. 

Til­efnið er um­ræða um hval­veiðar í kjöl­far nýrrar eftir­lits­skýrslu Mat­væla­stofnunar en Svan­dís Svavars­dóttir, sjávar­út­vegs­ráð­herra, hefur sagt til­efni til að skoða hvort leyfi til Hvals verði endur­nýjað á næsta ári, þó hún hafi ekki vald til þess. Í skýrslunni kom meðal annars fram að af­lífun sumra hvala tók marga klukku­tíma síðasta sumar.

„Í Akra­ness­kaups­stað og Hval­fjarðar­sveit þá koma 14,4 prósent út­svars­tekjur frá þessum veiðum og svo koma gríðar­legar skatt­tekjur til ríkisins, fyrir utan af­leiddu störfin sem verða til af þessu, bara í formi að­fanga og fæðis og flutninga og annars. Þetta er um­tals­verðir hags­munir þarna sem eru í húfi.“

Spyr sig hvar um­ræðan endar

Vil­hjálmur segir mikil­vægt að auð­lindir hafsins séu nýttar í sam­ræmi við veiði­ráð­gjöf Haf­rann­sóknunar­stofu.

„Það er gefinn út kvóti þannig það er engin hætta á of­veiði nema síður sé. 200 dýr og ef ég man rétt er stofninn í kringum 11.000 þannig að staðan er bara svona.“

Í pistli á Face­book sem Vilhjálmur skrifar um málið segist hann spyrja sig hvaða veiðar verði bannaðar næst út frá dýra­vel­ferðar­sjónar­miðum og nefnir þorsk­veiðar í net eða línu eða botn­vörpu sem dæmi.

„Ég spyr bara hvað næst? Það er líka það sem maður er að velta fyrir sér. Það kemur fram í skýrslunni að 70 prósent dýranna drepast sam­stundis og það geta alltaf komið upp svona að­stæður en ég er ekki í neinum vafa um að Hvalur muni ein­beita sér að þessu, enda er enginn að leika sér að veiða þessi dýr svo að þau þjáist.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×