Viðskipti innlent

Tíð rit­stjóra­skipti á Vikunni eigi sér eðli­legar skýringar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Framkvæmdastjóri og eigandi Birtings, Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir segir breytt fjölmiðlaumhverfi og áskoranir í rekstri ráða miklu um nýlegar mannabreytingar á Vikunni.
Framkvæmdastjóri og eigandi Birtings, Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir segir breytt fjölmiðlaumhverfi og áskoranir í rekstri ráða miklu um nýlegar mannabreytingar á Vikunni.

Fram­kvæmda­stjóri og eig­andi Birtings út­gáfu­fé­lags segir ekkert at­huga­vert við manna­breytingar á rit­stjórn Vikunnar. Miklar breytingar hafi verið á um­hverfi fjöl­miðla undan­farið. Fram­kvæmda­stjórinn vill ekki opin­bera hver nýr rit­stjóri sé, heldur gefa við­komandi færi á að opin­bera það sjálfur.

Val­gerður Gréta Grön­dal, sem starfað hefur sem rit­stjóri tíma­ritsins síðan um ára­mótin, hefur sagt upp störfum. Mbl.is greindi fyrst frá málinu en í um­fjöllun miðilsins voru rakin tíð rit­stjóra­skipti á miðlinum undan­farið ár. 

Stein­gerður Steinars­dóttir var rit­stjóri Vikunnar um margra ára skeið en var sagt upp störfum síðasta sumar og tók þá Guð­rún Óla Jóns­dóttir við til síðustu ára­móta þegar hún sagði upp og Val­gerður tók við, áður en hún hætti svo sjálf.

„Það er ekkert at­huga­vert við það að það séu manna­breytingar í þessari stétt eins og í öllum öðrum stéttum,“ segir Sig­ríður Dag­ný Sigur­björns­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Birtings, í sam­tali við Vísi.

Val­gerði hafi ein­fald­lega boðist störf á öðrum vett­vangi og laun sem Birtingur geti ekki keppt við. „Þetta er ekki dýpra en það. Við getum heldur ekkert keppt við mjög háar launa­kröfur eins og eru bara á markaðnum.“

Fleiri rit­stjóra­skipti hafa átt sér stað á miðlum Birtings undan­farna mánuði. Hanna Ingi­björg Arnars­dóttir sagði upp störfum í nóvember sem rit­stjóri tíma­ritanna Hús og Hí­býla og sagði Sig­ríður Dag­ný þá að fé­lagið hefði verið í staf­rænni þróun og eðli­legt að reksturinn tæki breytingum.

Nýr ritstjóri ekki ný inn um dyrnar

Sig­ríður segir um­hverfi fjöl­miðla hafa breyst gríðar­lega undan­farin ár sem kallað hafi á á­kveðnar breytingar af hálfu Birtings. Háar launa­kröfur og lítill markaður séu til vitnis um erfiðar rekstrar­að­stæður fjöl­miðla og bendir Sig­ríður á fall Frétta­blaðsins sem dæmi.

„Þegar maður hefur verið með fólk á rit­stjórn sem er búið að starfa hjá fé­laginu í kannski 10-15 ár, og þú ferð í á­kveðnar breytingar og þarft að laga strúktúrinn og launin að þá auð­vitað gerist þetta og það tekur tíma að móta nýja rit­stjórn.“

Birtingur hafi tekið upp raf­rænar á­skriftar­leiðir og segir Sig­ríður þær hafa reynst vel. Að­spurð hver sé nýr rit­stjóri Vikunnar segir Sig­ríður að hún komi ekki ný inn um dyrnar, heldur hafi starfað áður sem blaða­maður fyrir Vikuna.

„En ég ætla bara að leyfa henni að til­kynna þetta sjálf á sínum for­sendum. Svo erum við að fá þrjá nýja blaða­menn inn. Blaðið skrifar sig ekki sjálft og fréttirnar ekki heldur.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×