Golf

Tiger Woods lét lögfræðinginn sinn segja kærustunni upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tiger Woods með Ericu Herman þegar allt lék í lyndi fyrir nokkrum árum síðan.
Tiger Woods með Ericu Herman þegar allt lék í lyndi fyrir nokkrum árum síðan. Getty/Warren Little

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods lét lögfræðinginn sinn gera meira en flestir ætlast til þegar síðustu sambandsslit hans enduðu ekki vel.

Fyrrum kærasta Tiger Woods hefur dregið hann fyrir dómstóla og sakar hann um að hafa byrjað kynferðislegt samband með henni þegar hún var starfsmaður hans og hótað því síðan að reka hana ef hún skrifaði ekki undir trúnaðarsamning.

Konan heitir Erica Herman og var í sambandi með Tiger frá 2017 til 2022. Hún vill ógildingu á samningnum sem kemur í veg fyrir að ágreiningsmál þeirra endi fyrir dómstólum. Herman vill auk þess fá þrjátíu milljónir dollara í bætur.

Hún segir að Tiger hafði látið lögfræðing sinn segja henni upp á flugvelli þar sem hún hélt að hún væri að fara í helgarfrí með Tiger. Lögfræðingurinn rak hana síðan út úr húsi Tiger með allt sitt hafurtask. Tiger hafði lofað henni að hún mætti búa í húsi hans í ellefu ár en rak hana út eftir fimm ár.

Hin 39 ára gamla Herman vill ógilda trúnaðarsamninginn því hann kemur í veg fyrir að hún geti höfðað mál gegn Woods fyrir kynferðisofbeldi. Lögfræðingur Tiger segir að ekkert sé til í þeim ásökunum. Lögfræðingar Tigers vilja að dómarinn vísi málinu frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×