Viðskipti innlent

Farþegafjöldi í apríl þrefaldaðist á milli ára

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Flugvél Play í háloftunum.
Flugvél Play í háloftunum. Vísir/Vilhelm

Farþegum PLAY fjölgaði mikið í apríl og voru 102.499 talsins, samanborið við 86.661 farþega í mars. Sætanýtingin nam 80,8 prósentum. Hér er um að ræða verulegan vöxt frá sama tíma í fyrra, þegar farþegar voru 36.669 og sætanýtingin 72,4%. Farþegafjöldinn sem næst þrefaldaðist á milli ára. Svo segir í tilkynningu frá Play.

Mest sætanýting var í ferðum Play til Barcelona og London en þar var hún rúmlega 90 prósent. Á sama tíma hafi ferðir til annarra sólaráfangastaða félagsins reynst mjög vel.

Í tilkynningu er dregin sú ályktun að fjölgun ferðamanna sé til marks um aukna vörumerkjavitund um félagið erlendis, aukið traust og öflugt sölustarf. Félagið sé staðráðið í að auka hlutdeild sína á þessum markaði. Af öllum farþegum PLAY í apríl voru 33,5% að ferðast frá Íslandi, 31% voru á leið til Íslands og 35,3% voru tengifarþegar.

„Apríl var mjög góður sölumánuður sem er beint framhald á sterkri söluþróun fyrstu þriggja mánaða ársins, sem voru metsölumánuðir. Á sama tíma heldur meðalverð á hvern farþega áfram að hækka, sem og hliðartekjurnar að aukast. Bókanir fram á við haldast sterkar og þar má merkja umtalsvert sterkari bókunarstöðu miðað við sama tíma í fyrra,“ segir í tilkynningunni.

Stundvísi PLAY hafi verið með ágætum í apríl og numið 85,3 prósentum. 

„Þetta er vitnisburður um góða frammistöðu áhafna og starfsmanna á flugrekstrarsviði, sem kappkosta í hvívetna við að veita ávallt trausta og örugga þjónustu. Stundvísi PLAY hefur verið umtalsvert betri en hjá helstu samkeppnisaðilum á síðustu mánuðum, sem tryggir stöðu félagsins sem eins áreiðanlegasta flugfélags á mörkuðum þess.“

Flugáætlun til Aþenu framlengd vegna eftirspurnar

Áfangastaðir félagsins verða 38 í Evrópu og í Norður-Ameríku á árinu og félagið verður með tíu flugvélar í rekstri . Hluti af langtímauppbyggingu leiðakerfisins er að auka framboð enn frekar og kynna inn nýjungar en veturinn 2023-24 mun PLAY meðal annars bjóða upp á:

  • Síðdegisbrottfarir til Kaupmannahafnar og London
  • Flug allt árið um kring til Lissabon
  • Framlenging á flugáætlun félagsins til Aþenu vegna mikillar eftirspurnar
  • Auka tíðni flugferða til Alicante og Tenerife
  • Flug til nýju áfangastaðanna Fuerteventure and Verona

Tengdar fréttir

„Þetta er að verða þjóð­hags­lega mikil­vægt fyrir­tæki“

Flugfélagið Play hefur verið í mikilli sókn síðustu mánuði og hefur verið að vaxa á gríðarlegum hraða. Ársfjórðungsuppgjör félagsins var birt í dag en tekjur félagsins tæplega fjórföldust á einu ári. Forstjóri félagsins segist skíthræddur um að félagið vaxi of hratt, en þó er vel passað upp á að það gerist ekki. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×