Körfubolti

Grindavík fær mikinn liðsstyrk: „Langt síðan svona stór prófíll hefur komið“

Sindri Sverrisson skrifar
DeAndre Kane er með afar spennandi ferilskrá og hefur meðal annars orðið ísraelskur meistari árin 2018 og 2019.
DeAndre Kane er með afar spennandi ferilskrá og hefur meðal annars orðið ísraelskur meistari árin 2018 og 2019. UMFG

Körfuknattleikslið Grindavíkur hefur tryggt sér afar öflugan liðsstyrk fyrir næstu leiktíð í Subway-deild karla en í dag var tilkynnt um samninga við tvo nýja leikmenn.

Annar leikmannanna þekkir vel til á Íslandi en það er Daninn Daniel Mortensen sem lék með Haukum í vetur en var valinn besti erlendi leikmaðurinn í fyrra eftir frammistöðu sína með Þór Þorlákshöfn.

Mortensen var einnig afar drjúgur fyrir Hauka í vetur og skoraði að meðaltali 15,2 stig í leik í Subway-deildinni, tók 8,4 fráköst og gaf 4,7 stoðsendingar.

Daniel Mortensen hefur sannað sig sem afar öflugur leikmaður hér á landi.vísir/Diego

Tvöfaldur meistari í Ísrael og meira til

Hinn leikmaðurinn sem Grindavík hefur tryggt sér er DeAndre Kane sem er bandarískur en með ungverskt vegabréf.

Í tilkynningu Grindvíkinga kemur fram að Kane, sem er 33 ára gamall og 196 sentímetrar á hæð, sé fjölhæfur leikmaður sem geti bæði spilað sem bakvörður og framherji.

Kane hefur leikið víða á löngum ferli og meðal annars orðið tvívegis meistari í Ísrael með Maccabi Tel Aviv. Hann æfði meðal annars með LA Lakers og Toronto Raptors þegar háskólaferlinum lauk en hélt svo til Evrópu og spilaði í Rússlandi, Þýskalandi, Belgíu, Spáni, Ísrael og Grikklandi.

Síðustu ár hefur Kane hins vegar búið í Bandaríkjunum og keppt þar í The Basketball Tournament sem er opið mót, sýnt á ESPN, þar sem verðlaunafé fyrir sigurliðið nemur 1 milljón Bandaríkjadala. Kane hefur fjórum sinnum verið í sigurliði á mótinu, að því er fram kemur í tilkynningu Grindvíkinga.

„Við erum búin að vera lengi á eftir Kane enda er þetta frábær leikmaður sem gæti breytt ansi miklu fyrir okkar lið á næsta tímabili. Það er langt síðan svona stór prófíll hefur komið til okkar og við erum í skýjunum að þetta hafi loksins gengið eftir. Kane hefur alla burði til að vera einn besti leikmaður deildarinnar og við getum ekki beðið eftir að fá hann til okkar,“ segir Ingibergur Þór Jónasson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, í tilkynningu frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×