Umfjöllun og viðtöl: Kefla­­vík - Valur 66-69 | Vals­konur komnar yfir í úr­slita­ein­víginu

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur vann góðan sigur.
Valur vann góðan sigur. Vísir/Diego

Valur hóf úrslitaeinvígi Subway-deildar kvenna í körfubolta með því að hirða heimavallarréttinn af Keflavík. Sannkallaður spennutryllir í Keflavík sem endaði með þriggja stiga sigri Vals. 

Það var góð stemmning í fyrsta leik í úrslitaeinvíginu í Subway-deild kvenna. Keflavík frumflutti nýtt stuðningsmannalag sem bjó til góða stemningu. Það var skrekkur í báðum liðum til að byrja með og fyrsta karfan kom eftir tæplega þrjár mínútur.

Þrátt fyrir að Keflavík þurfti á tímabili að hafa töluvert meira fyrir hverri körfu miðað við Val þá voru heimakonur einu stigi yfir eftir fyrsta fjórðung 13-12.

Valur byrjaði betur í öðrum leikhluta. Hildur Björg Kjartansdóttir var að hitta vel og Valur komst fimm stigum yfir. Keflavík breytti um áherslu í vörninni og fór að pressa meira allan völlinn. Fyrir vikið tapaði Valur töluvert af boltum og Keflavík refsaði með auðveldum körfum.

Valur tapaði 15 boltum í fyrri hálfleik og Keflavík skoraði 14 stig eftir tapaða bolta á meðan Valur gerði aðeins 4 stig eftir 13 tapaða bolta Keflavíkur.

Keflavík var sjö stigum yfir í hálfleik 36-29.

Valur vann sig vel inn í leikinn í þriðja leikhluta. Gestirnir fóru að leysa varnarleik Keflavíkur betur og skotin fóru að detta þeim í hag. Kiana Johnson hitti aðeins úr einu skoti í fyrri hálfleik en komst í betri takt í þriðja leikhluta. Kiana fór að gefa fleiri stoðsendingar ásamt því gerði hún tvær körfur. Keflavík var þremur stigum yfir fyrir síðasta fjórðung 54-51.

Gestirnir tóku frumkvæðið í fjórða leikhluta. Valur byrjaði á að gera fyrstu fimm stigin í fjórða leikhluta og fékk stemmninguna með sér. 

Það var mikil spenna á síðustu mínútunni. Karina fékk opið þriggja stiga skot þegar tólf sekúndur voru eftir til að komast yfir en klikkaði. Tveimur stigum yfir fékk Simone Costa tvö vítaskot til þess að klára leikinn þegar sex sekúndur voru eftir en klikkaði á báðum. Kiana Johnson tók sóknarfrákastið og þá var leikurinn búinn. 

Valur vann þriggja stiga sigur 66-69.

Af hverju vann Valur?

Það voru aðeins þrjú stig sem skildu liðin af. Keflavík fór illa með þó nokkur tækifæri undir lokin og kastaði leiknum frá sér. Keflavík skoraði ekki stig síðustu þrjár mínúturnar og þar fór leikurinn. 

Hverjar stóðu upp úr?

Ásta Júlía Grímsdóttir spilaði afar vel í kvöld og endaði með tvöfalda tvennu. Ásta Júlía gerði 16 stig og tók 10 fráköst. 

Þrátt fyrir að hafa spilað ansi illa að eigin sögn þá var Kiana Johnson einu frákasti og einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennu. 

Hvað gekk illa?

Karina Denislavova Konstantinova hitti afar illa í kvöld. Karina endaði með 14 stig úr 26 prósent skotnýtingu og tapaði 5 boltum. Karina fékk opið skot til að koma Keflavík yfir þegar tólf sekúndur voru eftir.

Keflavík gat ekki keypt sér körfu undir lokin og síðustu stig Keflavíkur komu þegar þrjár mínútur og fimmtán sekúndur voru eftir. 

Hvað gerist næst?

Næsti leikur verður á laugardaginn klukkan 19:15 í Origo-höllinni.

Hörður: Töpuðum ekki á einu sóknarfrákasti

Hörður Axel Vilhjálmsson var svekktur eftir leikVísir/Bára Dröfn

Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var svekktur eftir tap kvöldsins.

„Mér fannst við spila illa undir lok þriðja leikhluta og í byrjun fjórða leikhluta sem hleypti þeim inn í leikinn. Slæmar ákvarðanir sóknarlega og mikið einstaklingsframtak. Ásamt því vorum við að tapa boltanum á vondum stöðum.“

Keflavík spilaði góða vörn í fyrri hálfleik og Hörður var ánægður með vörnina sem Keflavík spilaði.

„Við vorum að spila okkar vörn þar sem við höfum verið grimmar í allan vetur. Á sama tíma tók Valur of mikið af sóknarfráköstum. Þær eru rosa góðar í því og við þurfum að fara halda þeim í einu tækifæri í hverri sókn.“

Valur tók mörg sóknarfráköst og Hörður var svekktur að Valur hafi náð sóknarfrákasti undir lok leiks.

„Við töpuðum ekki leiknum á einu sóknarfrákasti á sama tíma fengum við skot til þess að komast yfir en Karina klikkaði og á sama tíma er fullt af öðrum hlutum sem er hægt að taka út.“

„Mér fannst takturinn fyrst og fremst hafa dottið út í seinni hálfleik. Það var mér að kenna þar sem ég var að rúlla hratt á liðinu,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira