Viðskipti innlent

Inga Hlín ráðin fram­kvæmda­stjóri Markaðs­stofu höfuð­borgar­svæðisins

Máni Snær Þorláksson skrifar
Inga Hlín Pálsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.
Inga Hlín Pálsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Aðsend

Inga Hlín Pálsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og mun hún hefja störf í byrjun maí. Alls bárust þrjátíu og sjö umsóknir um starfið.

Markaðsstofan var stofnuð með formlegum hætti um síðustu mánaðarmót. Stofnaðilar stofunnar eru Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins.

„Við erum gríðarlega ánægð að fá annan eins reynslubolta til að leiða nýstofnaða Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Inga Hlín hefur mikla reynslu af stefnumótun og innleiðingu stefnumótunarverkefna, bæði í ferðaþjónustu og fyrir aðrar atvinnugreinar og það er ómetanlegt fyrir verkefnin okkar framundan,“ er haft eftir Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, forseta borgarstjóranar og borgarfulltrúa Viðreisnar, en hún er formaður stjórnar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins.

Undanfarin ár hefur Inga Hlín starfað sem alþjóðlegur ráðgjafi og fyrirlesari. Hennar helstu verkefni hafa snúið að samstarfi fyrirtækja og opinberra aðila, stefnumótun, markaðssetningu, breytingastjórnun og sjálfbærni í tengslum við svæði og borgir.

Inga Hlín hefur á ferlinum starfað með ýmsum aðilum í tengslum við ráðgjöf og má þar helst nefna Austurbrú, Reykjavíkurborg og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Samhliða starfaði Inga Hlín hjá norrænu ráðgjafarfyrirtæki á sviði þróunar, nýsköpunar og markaðssetningar svæða.

Hún er með B.Sc. próf í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og M.Sc. próf í alþjóðamarkaðsfræði frá The University of Strathclyde í Skotlandi. Hún starfaði áður í yfir áratug hjá Íslandsstofu og Útflutningsráði, lengst sem forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina. 

Hjá Íslandsstofu og Útflutningsráði stýrði hún meðal annars kynningar- og markaðsstarfi á Íslandi í samstarfi við hagaðila undir merkjum Inspired by Iceland. Þá stýrði hún samstarfsverkefnunum Ísland allt árið og Iceland Naturally auk þess sem hún sat í stjórn NATA ferðamálasamstarfsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×