Um­fjöllun og við­töl: ÍBV - Stjarnan 37-33 | Eyja­menn komnir í for­ystu

Einar Kárason skrifar
Rúnar Kárason var öflugur í dag.
Rúnar Kárason var öflugur í dag. vísir/diego

ÍBV vann fjögurra marka sigur á Stjörnunni í fyrsta leik liðanna í einvígi þeirra í 8-liða úrsltum Olís-deildarinnar. ÍBV leiddi allan tímann en Stjarnan náði að gera leikinn spennandi undir lokin.

Eyjamenn hófu leik en það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið. Eftir jafnar upphafsmínútur dró til tíðinda á sjöttu mínútu leiksins þegar Hergeir Grímsson braut illa á Arnóri Viðarssyni að mati dómaranna og fékk Hergeir beint rautt spjald. Við þetta tóku heimamenn yfirhöndina og náðu fljótlega þriggja marka forustu sem þeir héldu meginþorra fyrri hálfleiks.

Stjörnumenn voru þó aldrei langt undan og þegar vel var liðið á hálfleikinn tókst þeim að jafna í stöðunni 14-14. Eftir þennan góða kafla gestanna fór þeim þó að fatast flugið á ný og gekk ÍBV á lagið. Sjö mörk gegn þremur mörkum Stjörnunnar á lokakafla fyrri hálfleiks þýddi að heimamenn gengu til búningsherbergja með fjögurra marka forustu, 21-17, eftir fjörugar þrjátíu mínútur.

ÍBV hóf síðari hálfleik eins og þeir enduðu þann fyrri og juku forskot sitt hægt og rólega. Eftir tíu mínútna leik var staðan orðin 28-21. Gestirnir voru langt frá því að leggja árar í bát þrátt fyrir vonda stöðu og um miðjan hálfleikinn hófu þeir að saxa á forskot heimamanna.

Garðbæingar virtust til alls líklegir þegar þeir komu sér úr 28-21 í stöðuna 33-30, með boltann og fengu vítakast. Petar Jokanovic varði hinsvegar vítaskot Björgvins Hólmgeirssonar og Eyjamenn óðu upp völlinn og juku forskot sitt í fjögur mörk.

Þetta reyndist ákveðinn vendipunktur en eftir þessar örfáu sekúndur virtust gestirnir ekki ná upp sama orkustigi og ÍBV gekk á lagið. Báðum liðum tókst að koma boltanum þrívegis í netið á lokamínútum leiksins og lauk leik því með fjögurra marka sigri ÍBV.

Af hverju vann ÍBV?

Gestirnir urðu fyrir tveimur áföllum snemma leiks þegar Pétur Árni Hauksson fór af velli vegna meiðsla og Hergeir fékk að líta rauða spjaldið. Garðbæingar urðu því að breyta til og myndaðist smá ringulreið í leik þeirra sem Eyjamenn nýttu sér vel. Markvarslan var einnig betri Eyjamegin og reynslumikið lið ÍBV gerði vel í að skila sigrinum í hús.

Hverjir stóðu uppúr?

Rúnar Kárason skilaði góðu dagsverki, bæði sóknarlega og varnarlega, með átta mörkum rétt eins og Kári Kristján Kristjánsson. Arnór Viðarsson spilaði einnig mjög vel og skoraði sjö mörk. Pavel Miscevich átti góðan leik í marki ÍBV.

Starri Friðriksson skoraði níu mörk úr níu skotum sínum í liði Stjörnunnar en reynsluboltinn Björgvin Hólmgeirsson skoraði átta.

Hvað gekk illa?

Leikskipulagi Garðbæinga var sópað af borðinu snemma leiks með meiðslum og útilokunum. Þeir gáfu Eyjamönnum litla fingur en ÍBV tók höndina upp að öxl. Rauða spjald Hergeirs var stórt atvik og þá sér í lagi í leik sem þessum. Einnig var markvarslan hjá gestunum ekki nægilega góð.

Hvað gerist næst?

Síðari leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn næstkomandi í Garðabæ.

„Gott að sigra“

„Það er gott að sigra,“ sagði Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV eftir sigurinn.Vísir/Diego

„Leikurinn var skrýtinn og köflóttur en að sigra er vissulega jákvætt. Við komum okkur í góðar stöður og mér finnst við hafa klúðrað tækifærum sem við fáum og hefðum getað gert betur. Þetta er úrslitakeppni og lið berjast upp á líf og dauða svo það er ekkert óeðlilegt [að Stjarnan komi til baka] en við setjum kröfum á mannskapinn að gera betur.“

Athygli vakti um miðjan fyrri hálfleik þegar Pavel Michevich, sem hafði varið vel í marki ÍBV, fór af velli fyrir Petar Jokanovic. Við það datt markvarslan niður.

„Ég var kannski of fljótur að kippa honum út en mér fannst tölfræðin sýna að það væru komnir mínusar en það er kannski vitlaust metið hjá mér. Ég þarf að kíkja á það og sjá hvernig þetta leit út.“

Næsti leikur liðanna er á þriðjudaginn næstkomandi.

„Maður vill ekki leika sér að hættunni ef það er hægt að komast hjá því. Við förum svo sannarlega í Garðabæinn til að berjast fyrir sigri. Ef það tekst þá er það frábært, en við vitum að við erum að keppa á móti reynslumiklu liði með frábæran þjálfara. Við þurfum að halda áfram að sýna okkar besta,” sagði Erlingur að lokum.

„Við þorðum og gáfumst ekkert upp“

Patrekur Jóhannesson þungt hugsi.Vísir/Diego

Áföllin tvö sátu í þjálfar Stjörnunnar, Patreki Jóhannessyni, eftir leik. 

„Við missum Pétur og Hergeir út eftir stuttan tíma en ég get ekki annað en hrósað mínum mönnum sem voru margir í nýjum hlutverkum. Ég varð að púsla þessu upp. Við vorum með töluvert breytt lið vegna meiðsla en svo bætast þessi áföll við. Þó ÍBV hafi verið skrefinu á undan þá var markvarslan meiri hjá ÍBV sem skiptir máli í þessu.“

„Við náum að minnka muninn í þrjú mörk en klikkum á víti sem hefði getað minnkað í tvö. Þetta rauða spjald og meiðsli höfðu áhrif en ég tek ekkert af ÍBV. Það er þyngd í Rúnari (Kárasyni) sem labbar full auðveldlega á köflum. Sama með Kára (Kristján Kristjánsson). Við þorðum og gáfumst ekkert upp. Það hefði verið auðvelt að fara að væla og skæla og leggjast niður. Við héldum áfram þó það hafi verið brekka. Nú erum við búnir að tapa þessu og við verðum að sjá hvernig meiðslin eru. Ég reikna ekki með Pétri en vonandi geta þeir sem urðu fyrir hnjaski verið með [í næsta leik]. Við erum 1-0 undir og ætlum okkur að vinna á þriðjudaginn.“

Rauða spjald Hergeirs Grímssonar var stórt atvik í stórum leik. Patrekur vonast til að dómararnir hafi haft rétt fyrir sér.

„Ég ætla rétt að vona að rauða spjaldið hafi verið réttur dómur og vona að þeir hafi verið 100% vissir. Þeir tóku sér ágætis tíma í að dæma en ég veit það ekki. Þeir gáfu rautt spjald og það er helvíti stór dómur. Ég vona að þeir hafi verið vissir þar sem þetta eyðilagði hjá okkur taktinn í leiknum.“

„Miðað við hvernig staðan er þá eru tveir að glíma við höfuðmeiðsli. Þeir verða ekki með. Tandri (Már Konráðsson) losnaði við gifsið í gær. Það væri frábært [ef hann gæti spilað], en strákarnir gerðu þetta ágætlega þrátt fyrir að hafa ekki langan tíma til að spila sig saman. Við þurftum að púsla okkur saman upp á nýtt,“ sagði Patrekur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira