Skoðun

Um gróða dagvöruverslana

Andrés Magnússon skrifar

Umræðan um ofurgróða fyrirtækja í dagvöruverslun er ekki ný af nálinni. Sú umræða hefur sprottið upp með reglubundnum hætti svo lengi sem undirritaður hefur fylgst með, sem er orðinn drjúgur tími. Ýmsir hafa þar lagt orð í belg, en fullyrða má að sá aðili sem hefur haft sig mest frammi á þessu sviði er verðlagseftirlit ASÍ. Nýlega var það t.d. fullyrt þar á bæ að dagvöruverslanir hefðu undanfarið, og í ríkara mæli en áður, velt verðhækkunum frá birgjum yfir á neytendur. Ekki var að sjá að þessi staðhæfing væri sérstaklega rökstutt.

Eins og öllum er kunnugt þá hafa verðhækkanir frá birgjum, bæði vegna innfluttrar vöru og innlendrar, verið nær fordæmalausar undanfarna mánuði. Ástæður þess ættu öllum að vera kunnar, en bæði heimsfaraldur og stríðsátök í Evrópu hafa haft veruleg áhrif á framleiðslu- og flutningskostnað um allan heim, með tilheyrandi áhrifum á vöruverð.

Fyrir nokkru birti Samkeppniseftirlitið sk. framlegðargreiningu fyrir nokkra lykilmarkaði á smásölustigi. Einn þessara markaða var dagvöruverslun. Meðal þeirra fullyrðinga sem eftirlitið setur þar fram er að álagning í smásölu á Íslandi sé há í alþjóðlegum samanburði. Þessi fullyrðing er ein af fjölmörgum ágöllum sem hagsmunaaðilar hafa gert athugasemdir við enda á hún ekki við rök að styðjast. Það er beinlínis ekkert í greiningu eftirlitsins sem styður þessa staðhæfingu. Hvorki framlegðar- né hagnaðarhlutfall fyrirtækja á þessum markaði hefur aukist undanfarin ár. Velta fyrirtækja í þessum greinum jókst mikið á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir en álagning jókst hins vegar ekki.

Nú hafa þrjú stærstu fyrirtækin á dagvörumarkaði nýlega birt uppgjör sín. Ekkert í þeim uppgjörum styður fullyrðingar ASÍ og Samkeppniseftirlitsins. Þvert á móti hafa fyrirtæki á þessum markaði tekið á sig framlegðarskerðingu og með því móti lagt sitt af mörkum til að vinna bug á verðbólgunni sem er hinn sameiginlegi óvinur atvinnulífs og heimila.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×