Viðskipti innlent

DV selt á 420 milljónir og Björn á­fram rit­stjóri

Atli Ísleifsson skrifar
Helgi Magnússon var stjórnarformaður Torgs. Félag í hans eigu, Fjölmiðlatorg ehf, hefur nú keypt DV.
Helgi Magnússon var stjórnarformaður Torgs. Félag í hans eigu, Fjölmiðlatorg ehf, hefur nú keypt DV. Vísir/Vilhelm

Félag í eigu Helga Magnússonar, Fjölmiðlatorg, hefur keypt DV á 420 milljónir króna. Björn Þorfinnsson, sem sagði upp sem ritstjóri blaðsins á síðasta ári, hefur dregið uppsögnina til baka og verður áfram ritstjóri.

Þetta staðfestir Björn í samtali við RÚV í dag. Greint var frá því á föstudaginn að útgáfufélagið Torg hefði ákveðið að hætta útgáfu Fréttablaðsins og stöðva úrsendingar Hringbrautar. Hátt í hundrað manns var sagt upp.

Björn Þorfinnsson.

Á sama tíma var greint frá því að starfsemi dv.is og hringbraut.is yrði fram haldið. Sömuleiðis yrði haldið áfram með útgáfu Iceland Magazine á næstunni.

Björn segir að tveir fréttamenn komi yfir á DV þannig að þeir fari úr því að vera sjö og í níu. Í hópi þeirra sem koma yfir eru Einar Þór Sigurðsson, sem starfaði á vefsíðu Fréttablaðsins og var þar áður fréttastjóri á DV.

Björn segir ennfremur að til standi að flytja starfsemi DV í Hlíðarsmára í Kópavogi.

Helgi Magnússon var aðaleigandi Torgs en fyrir helgi var greint frá því að til stæði að lýsa yfir gjaldþroti félagsins í þessari viku.

Björn tók við ritstjórastarfinu í maí 2021 og tók þá við keflinu af Tobbu Marínósdóttur sem gegnt hafði stöðunni í rúmt ár.


Tengdar fréttir

Tóm­legt um að litast á hinsta degi Frétta­blaðsins

Hátt í hundrað manns misstu vinnuna í morgun þegar Fréttablaðið, annað tveggja dagblaða landsins, var lagt niður. Ritstjóri segir daginn sorgardag fyrir íslensku þjóðina og starfsmenn eru í áfalli.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×