Handbolti

„Myndi segja að deildin okkar væri á mjög góðum stað hvað þetta varðar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Einar Andri Einarsson þjálfaði Aftureldingu á sínum tíma en þjálfar í dag U-21 árs landslið Íslands.
Einar Andri Einarsson þjálfaði Aftureldingu á sínum tíma en þjálfar í dag U-21 árs landslið Íslands. Vísir

„Það hefur verið umræða að undanförnu með körfuboltann og útlendingana þar. Olís deildin er í hina áttina, alveg byggð upp á Íslendingum. Þetta er frábær vettvangur fyrir unga og góða leikmenn til að móta sinn leik og verða betri,“ sagði Stefán Árni Pálsson í nýjasta þætti hlaðvarps Seinni bylgjunnar.

Stefán Árni var að ræða við Einar Andra Einarsson sem er í dag þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands í handbolta. Einar Andri hefur einnig þjálfað í Olís deildinni og þekkir því bæði deildina sem og leikmenn hennar betur en flest.

„Ég get bara nefnt sem dæmi að við Róbert Gunnarsson vorum með U-21 árs landsliðið út í Frakklandi um daginn. Vorum að spjalla við Frakkana, þeir með frábært lið og frábæra leikmenn en leikmennirnir þeirra eru margir hverjir bara að spila í varaliðum og akademíu deildum.“

„Þeir kvarta mikið yfir því að þeirra leikmenn séu ekki að spila á nógu háu gæðastigi. Á meðan okkar leikmenn eru að spila í efstu deild hérna, nánast allir með hlutverk og að spila vel. Deildin er að virka eins og maður vill sjá. Auðvitað er mikilvægt að vera með eldri leikmenn sem miðla til þeirra yngri og hjálpa þeim. Þannig að þetta sé samkeppni.“

„Ég myndi segja að deildin okkar væri á mjög góðum stað hvað þetta varðar,“ bætti Einar Andri við endingu áður en Stefán Árni spurði hversu mikilvægt það væri fyrir leikmenn U-21 árs landsliðsins að fá fullt af mínútum, tækifæri til að gera fullt af mistökum og spila fullorðins handbolta.

„Það er náttúrulega bara forsendan og má við þetta bæta að leikmenn eru ekki bara að spila og fá mínútur. Liðin hérna heima eru að vinna vel, þjálfararnir í deildinni eru virkilega flottir og færir. Allir menntaðir með sinn stíl og umgjörðin komin langt. Það hjálpar líka leikmönnum, að vera með góða þjálfara og með góðu umhverfi. Öll liðin eru að gera sitt besta hvað það varðar. Heildarpakkinn er góður,“ sagði Einar Andri að lokum um þetta málefni.

Þáttinn í heild sinni má hlusta á hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×