Handbolti

Kristján skoraði þrjú í naumum sigri PAUC

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristján Örn skoraði þrjú mörk í kvöld.
Kristján Örn skoraði þrjú mörk í kvöld. Twitter@pauchandball

Eftir stormasaman dag fyrir landsliðsmanninn Kristján Örn Kristjánsson skoraði hann þrjú mörk fyrir PAUC er liðið vann nauman tveggja marka sigur gegn Chartres í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld, 29-27.

Kristján hefur staðið í skeytasendingum við landsliðsmarkvörðinn Björgvin Pál Gústavsson þar sem þeir félagarnir hafa birt sitthvora Facebook færsluna með skjáskotum af samskiptum þeirra á milli. Kristján hefur sakað Björgvin um „niðrandi skilaboð,“ en Björgvin segir Kristján ekki segja alla söguna.

Kristján hefur þó ekki látið þessi samskipti á sig fá því hann skoraði eins og áður segir þrjú mörk fyrir PAUC úr fjórum skotum er liðið vann nauman tveggja marka sigur gegn Chartres. Kristján og félagar höfðu góð tök á leiknum lengst af og náðu mest fimm marka forskoti í síðari hálfleik, en gestirnir í Chartres snéru taflinu við og náðu forystunni um stund.

Heimamenn í PAUC reyndust þó sterkari á lokamínútunum og unnu að lokum tveggja marka sigur, 29-27. PAUC situr nú í sjöunda sæti frönsku deildarinnar með 20 stig eftir 22 leiki, sjö stigum meira en Chartres sem situr í 14. sæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.