Viðskipti innlent

Ný verslun Góða hirðisins opnar loksins á morgun

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Allt var að verða tilbúið þegar fréttastofa kíkti við fyrr í mánuðinum.
Allt var að verða tilbúið þegar fréttastofa kíkti við fyrr í mánuðinum. Vísir/Einar

Ný og endurbætt verslun Góða hirðisins opnar við Köllunarklettsveg í húsnæði gömlu Kassagerðarinnar á morgun. Verslunum á Hverfisgötu og í Fellsmúla var lokað fyrr á árinu en flutningar höfðu tafist um nokkuð skeið. Húsnæðið er tvöfalt stærra en fyrri verslun og stefnt er á að koma fleiri hlutum aftur í hringrásarkerfið. 

Tilkynnt var um flutningana í febrúar 2022 en þá var stefnt á flutninga í janúar 2023. Vegna framkvæmda í gömlu Kassagerðinni dróst það aðeins en versluninni á Hverfisgötu var lokað þann 31. janúar og versluninni í Fellsmúla var lokað 20. febrúar. 

Nú liggur fyrir að nýja verslunin muni opna á morgun, fyrsta apríl, klukkan ellefu en tekið er fram í tilkynningu að þetta sé ekki aprílgabb. 

Nýja verslunin er tvöfalt stærri en eldri verslun Góða hirðisins. Fréttastofa kíkti í heimsókn fyrr í mánuðinum þar sem undirbúningur var í fullum gangi en fréttina má finna í spilaranum hér fyrir neðan. 

Tekið er fram í tilkynningu að húsnæðið sé allt mun hentugra fyrir bæði viðskiptavini og starfsfólk en með stærri verslun er stefnt að því að koma fleiri vörum aftur inn í hringrásina en mögulegt var í minna húsnæði.

„Góði hirðirinn er flaggskip í hringrásarhagkerfinu á Íslandi þar sem notaðar vörur, sem safnað er á endurvinnslustöðvum SORPU, eru seldar nýjum notendum. Með þessu þarf ekki að framleiða nýjar vörur heldur nota áfram þær gömlu, með tilheyrandi ávinningi fyrir loftslagið og jörðina,“ segir í tilkynningunni. 

Skrifstofur Sorpu flytjast einnig í húsnæðið og er stefnt á að aðeins fyrirtæki með græna stefnu verði á svæðinu. 


Tengdar fréttir

Styttist óðum í að ný og endurbætt verslun Góða hirðisins opni

Æstir aðdáendur Góða hirðisins geta fagnað því að ný verslun opnar innan skamms í gömlu Kassagerðinni. Undirbúningur er í fullum gangi en þegar eru um hundrað tonn af vörum í búðinni og bætist stöðugt við. Vöruúrval verður aukið og sérstakt rými frátekið til að hjálpa fólki að endurnýta og laga. Verkefnastjóri segir þetta tímamót í sögu Góða hirðisins og endurnotkun á Íslandi.

Loka verslunum Góða hirðisins og hefja flutning í nýtt húsnæði

Verslanir Góða hirðisins á Hverfisgötu og Fellsmúla munu sameinast í nýju húsnæði á Köllunarklettsvegi á næstunni. Verslunin á Hverfisgötu mun loka þann 31. janúar og verslunin í Fellsmúla lokar þann 20. febrúar. Þá mun netverslunin loka alfarið. 

Góði hirðirinn flytur í Kassa­gerðina

Góði hirðirinn mun flytja úr Fellsmúla og í gömlu Kassagerðina við Köllunarklettsveg 1 í Reykjavík. Stefnt er að flutningum þann 1. janúar á næsta ári.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×