Viðskipti innlent

Dagmar Ýr tekur við af Jónu bæjarstjóra

Bjarki Sigurðsson skrifar
Dagmar Ýr Stefánsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Austurbrúar.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir er nýr framkvæmdastjóri Austurbrúar. Aðsend

Dagmar Ýr Stefánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Austurbrúar. Hún tekur við af Jónu Árnýju Þórðardóttur sem fer nú í starf bæjarstjóra í Fjarðabyggð. 

Jón Björn Hákonarson, fráfarandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, óskaði í lok febrúarmánaðar eftir því að láta af störfum sem bæjarstjóri Fjarðabyggðar. Í Facebook-færslu í kjölfar uppsagnarinnar sagði Jón tíma sinn sem bæjarstjóra hafa verið annasaman. 

„Ég neita því þó ekki að síðustu misseri hef ég haft ákveðnar áhyggjur af því hvernig orðræða um störf kjörinna fulltrúa er að þróast og gagnrýni og rökræða um málefni hefur þróast yfir á persónulegar nótur á samfélagsmiðlum og í almennri umræðu. Því þurfum við að breyta í samfélaginu okkar til að gera störf kjörinna fulltrúa eftirsóknarverð til framtíðar litið,“ sagði Jón einnig. 

Úr Jóni í Jónu

Daginn eftir var greint frá því að Jóna Árný Þórðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri Austurbrúar, myndi taka við af Jóni. Gert var ráð fyrir því að Jóna hæfi störf þegar Jón myndi hætta og mun það gerast um mánaðamótin. 

Frá því er greint á vef Austurbrúar, stofnun sem vinnur að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi, að Dagmar Ýr Stefánsdóttir muni taka við af Jónu. 

Dagmar er með B.A. gráðu í fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri. Síðan 2013 hefur hún starfað sem yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli. Áður starfaði Dagmar sem forstöðumaður markaðs- og kynningarsviðs hjá Háskólanum á Akureyri í fimm ár og var þar áður fréttamaður hjá fjölmiðlafyrirtækinu N4 í eitt ár.

Á ætlað er að Dagmar Ýr komi til starfa hjá Austurbrú í júní. Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður stjórnar Austurbrúar, fagnar ráðningunni. 

„Jóna Árný, fráfarandi framkvæmdastjóri, var einstaklega öflug í sínu starfi og skilar af sér góðu búi. Stjórn SSA og Austurbrúar er sannfærð um að Dagmar Ýr sé rétta manneskjan til að taka við af henni. Hugmyndir hennar samrýmast framtíðarsýn okkar, eins og hún birtist í Svæðisskipulagi Austurlands, og hún hefur réttu þekkinguna og reynsluna til að stýra Austurbrú áfram til góðra verka,“ er haft eftir Berglindi í tilkynningunni. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×