Fótbolti

Barcelona örugg­­lega í undan­úr­slit Meistara­­deildar Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Börsungar fóru mikinn í kvöld.
Börsungar fóru mikinn í kvöld. Twitter@FCBfemeni

Barcelona flaug inn í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu með 5-1 sigri á Roma í kvöld. Börsungar unnu einvígið samtals 6-1 og eiga því enn möguleika á að komast í úrslit þriðja árið í röð.

Alls mættu 54.667 manns á leik kvöldsins og sáu sýninguna sem Börsungar buðu upp á. Leiknum og einvíginu var svo gott sem lokið strax í fyrri hálfleik. Fridolina Rolfö kom Barcelona yfir með góðu skoti úr teignum eftir að Asisat Oshoala lagði boltann út á hana eftir aðeins 11. mínútu.

Mapi Leon tvöfaldaði forystuna eftir rúmlega hálftíma með stórglæsilegu skoti lengst utan af velli. 

Rolfö bætti við öðru marki sínu og þriðja marki Börsunga í blálok fyrri hálfleiks eftir fyrirgjöf Caroline Hansen frá hægri.

Strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks kom fjórða markið. Oshoala skoraði af stuttu færi eftir sendingu Aitana Bonmati.

Nokkrum mínútum síðar komst Patricia Guijarro á blað. Önnur stoðsending frá Hansen og staðan orðin 5-0.

Annamaria Serturini skoraði sárabótarmark fyrir gestina skömmu síðar en fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur á Nývangi í Katalóníu 5-1 Barcelona í vil.

Barcelona er þar með fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í ár. Síðar í kvöld geta Arsenal eða Bayern München gert slíkt hið sama. Íslendingalið Bayern leiðir 1-0 eftir leikinn í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×