Ingólfur mun halda áfram að starfa á Valhöll með nýjum eigendum. Hann stofnaði stofuna árið 1995 og er aðalútibú hennar í Síðumúla. Þó rekur fasteignasalan einnig útibú á Ólafsvík og Höfn í Hornafirði.
Snorri hefur starfað við sölu fasteigna síðan árið 2005 en hann kemur til Valhallar frá Domusnova. Þar hefur hann starfað undanfarin sjö ár. Snorri útskrifaðist með BA gráðu í lögfræði árið 2013 frá Háskólanum í Reykjavík og meistaragráðu árið 2015. Árið 2017 öðlaðist Snorri málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum og hefur hann fengist við ýmis verkefni sem lögmaður með áherslu á fasteignaviðskipti.
Óskar er löggiltur fasteignasali og hefur verið lögmaður frá árinu 2015. Hann útskrifaðist með meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2010 og meistaragráðu (LL.M) í evrópurétti frá Háskólanum í Lundi árið 2013. Einnig hefur hann lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Frá árinu 2014 hefur Óskar starfað við fasteignasölu og ráðgjöf tengdri fasteignarfjármögnun fyrirtækja. Þar áður starfaði hann í fjögur ár við sölu og viðskiptaþróun hjá alþjóðlegu fyrirtæki í Svíþjóð. Óskar kemur til Valhallar frá Miklaborg fasteignasölu þar sem hann starfaði fá árinu 2018.
„Við erum mjög spenntir að taka við rekstri Valhallar fasteignasölu sem er með þekktari vörumerkjum landsins á fasteignamarkaði. Um er að ræða rótgróna fasteignasölu sem hefur verið vel rekin af Ingólfi í 28 ár. Við tökum við góðu búi og ætlum að byggja ofan á það með starfsfólki Valhallar ásamt gömlum og nýjum viðskiptavinum,“ er haft eftir Snorra í tilkynningu.