UBS keypti Credit Suisse á 3,24 milljarða Bandaríkjadala sem er langt undir því verði sem bankinn var metinn á fyrir helgi eða 8 milljarða Bandaríkjadala. Vonir stóðu til að fréttir af yfirtökunni myndu verða til þess að endurheimta traust innan bankageirans og koma á jafnvægi á fjármálamörkuðum en viðbrögð á fjármálamörkuðum voru samt sem áður blendin í dag. Christine Lagarde, forseti evrópska Seðlabankans, sagðist í dag fagna útspili svissneskra stjórnvalda.
„Við fögnum svissneskum stjórnvöldum og ákvörðunum þeirra sem teknar voru til að takast á við ástandið. Þær voru nauðsynlegar til að endurheimta fjármálastöðugleika.“
Ásgeir Brynjar Torfason, hagfræðingur, segir Credit Suisse hafa verið í vandræðum í mörg ár. Hlutabréf í Credit Suisse tóku djúpa dýfu í dag.
„Núna eftir samrunann er einhver ótti um að það sé meiri skítur sem eigi eftir að koma upp á yfirborðið þaðan en samhliða áhrifin á allan fjármálageirann er náttúrulega vangaveltur markaðsaðilanna um það hvaða aðrir bankar séu með vandræðaeignir sem hafi jafnvel ekki komið upp á yfirborðið eða eru að lenda í meiri vandræðum núna þegar vextir eru að hækka alls staðar.“
Markaðsaðilar fylgist nú náið með stöðu mála enda hefur atburðarásin verið hröð.
„Þetta er alls ekki búið og það er einn af lærdómunum úr fjármálahruninu 2008 sem virðist vera að koma almennilega fram að fjármálakerfin eru ekki stöðug og þau leita ekki sjálfkrafa í stöðugleika. Eiginlega þurfa þau alltaf þegar á reynir að fá aðstoð hins opinbera.“
Næsti stóri vendipunkturinn sé á miðvikudaginn þegar bandaríski Seðlabankinn kynnir vaxtaákvörðun sína.
Hækkun bjuggust flestir við lengi vel en núna eru markaðirnir að búast við engri breytingu og er jafnvel farið að tala um vaxtalækkun – um það er kannski fullsnemmt að segja - en það mun allavega hafa mjög mikil áhrif af því að þessi órói er búinn að valda auknum kostnaði á fjármagnið, ígildi allt upp í eitt, eitt og hálft prósent af stýrivaxtahækkun.“