Innherji

Nei­kvæðir raun­vextir á inn­lánum „geta ekki gengið til lengdar“

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að frá því að hann tók við embætti hafi hann lagt áherslu á að afnema reglur sem séu óþarfar. 
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að frá því að hann tók við embætti hafi hann lagt áherslu á að afnema reglur sem séu óþarfar.  Vísir/Vilhelm

Ef raunvextir á innlánum heimila og fyrirtækja í bönkunum eru að stórum hluta neikvæðir um langt skeið er hætta á að það muni að lokum draga mjög úr sparnaði og þá um leið skrúfa fyrir aðgengi að lánsfé í hagkerfinu, að sögn seðlabankastjóra.

„Það sem ég hef verið að einblína á frá því að ég tók við embætti seðlabankastjóra er að létta á óþörfum reglum,“ segir Ásgeir Jónsson þegar hann er spurður hvort ákvörðun um að fella niður reglur um lágmarks binditíma á verðtryggð innlán muni ekki á móti hafa þau áhrif að verðtryggð útlán banka til heimila verði  umfangsmeiri en ella. Seðlabankastjóri hefur áður lýst því yfir, þegar vaxtastigið var lægra, að hann hefði væntingar um hægt væri að koma á fót nafnvaxta lánakerfi, sem myndi meðal annars þýða að bit og virkni peningastefnunnar yrði meiri.

Fyrr í þessum mánuði greindi seðlabankastjóri frá því, eins og Innherji hefur fjallað um, að bankinn myndi  fella á brott þær reglur sem hafa gilt um lágmarks binditíma á verðtryggð innlán og útlán. Allt frá árinu 1996 hefur innlánastofnunum verið bannað að verðtryggja innstæður til skemmri tíma en þrjú ár og tveimur árum síðar, eða árið 1998, var lágmarkslengd verðtryggðra útlána á móti aukin í fimm ár.

„Við töldum þetta vera óþarfa reglur og að Seðlabankinn ætti ekki að vera skipta sér af þessu,“ sagði Ásgeir Jónsson í viðtali við Innherja eftir kynningarfund fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans síðasta miðvikudag. Hinar nýju reglur munu taka gildi 1. júní næstkomandi.

Það sem ég hef verið að einblína á frá því að ég tók við embætti seðlabankastjóra er að létta á óþörfum reglum.

Breytingin gæti ýtt undir aukinn sparnað á tímum þegar verðbólgan hefur aukist hröðum skrefum og heimilin eru á ný farin að sækja í verðtryggð íbúðalán. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs jukust þannig verðtryggð íbúðalán stóru bankanna til heimila um 25 milljarða á meðan fjárhæð óverðtryggðra lána var óbreytt.

Ásgeir segir að það sé ljóst að neikvæðir raunvextir á innlánum „geti ekki gengið til lengdar,“ en hagstæðustu óverðtryggðu innlánsreikningar eru í dag með um eða yfir 6 prósenta vexti á sama tíma og verðbólgan mælist nú 10,2 prósent. Vextir á verðtryggðum innlánsreikningum bankanna, sem eru bundnir í 3 til 5 ár, eru hins vegar að jafnaði á bilinu um 0,1 til 0,4 prósent.

Ef þessi staða breytist ekki þá mun það „hefna sín þannig að almenningur fer að minnka sparnað og fjármögnun bankanna þornar upp og aðgangur fyrirtækja að lánsfé dregst saman,“ útskýrir seðlabankastjóri, en íslensku bankarnir eru að langstærstum hluta fjármagnaðir með innlánum.

Í lok janúar á þessu ári námu verðtryggð innlán heimilanna hjá bönkunum um 333 milljarðar króna, sem var um fjórðungur af heildarinnlánum þeirra. Höfðu þau aukist um liðlega 50 milljarða á undanförnum tólf mánuðum, sem má einkum rekja til hækkandi verðbólgu. Verðtryggð útlán bankanna stóðu á sama tíma í 632 milljörðum króna og hafa aukist nokkuð síðustu mánuði.

„Það hefur verið erfitt fyrir bankana að fjármagna verðtryggð útlán,“ að sögn seðlabankastjóra en núna sé verið að gera það þeim auðveldara.

Með breytingum á reglunum, sem unnið hefur verið að í um eitt ár, gætu bankarnir þannig farið að bjóða neytendum upp á fjölbreyttari valkosti þegar kemur að verðtryggðum innlánsreikningum sem væru þá bundnir til skemmri tíma en hingað til hefur verið heimilt. Það kann aftur að verða meðal annars til þess að auka sparnað en hann hefur farið hratt minnkandi að undanförnu sem hefur um leið endurspeglast í því að viðskiptaafgangur hefur snúist upp í viðskiptahalla.

Það mun hefna sín þannig að almenningur fer að minnka sparnað og fjármögnun bankanna þornar upp og aðgangur fyrirtækja að lánsfé dregst saman.

Það var á árunum 1995 til 1998 sem þáverandi stjórnvöld gripu til aðgerða sem miðuðu að því að draga úr verðtryggingu hér á landi með því að banna hana á innlánum er höfðu skemmri binditíma en þrjú ár og útlánum í fimm ár. Lokaáfangi breytinganna átti síðan vera árið 2000 þegar verðtrygging innlána skyldi bönnuð með öllu og lágmarkstímalengd verðtryggðra útlána skyldi verða 7 ár. Sá áfangi kom hins vegar aldrei til framkvæmda.

Í skýrslunni Nauðsyn eða val? Verðtrygging, vextir og verðbólga frá árinu 2012, sem var gefin út af Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) og núverandi seðlabankastjóri var einn höfunda að, er fjallað um verðtryggingarskekkju bankanna. Bent er á að þar sem innlánastofnanir séu í eðli sínu fjármagnaðar til skamms tíma en lána út til langs tíma, leiðir bann á verðtryggingu skammtímaskuldbindinga til þess að þær hafa innbyggða skekkju í verðtryggingarjöfnuði sínum. Verðtryggð innlán geri einfaldlega of miklar kröfur um binditíma fyrir flesta sparifjáreigendur og því er erfitt að finna verðtryggða fjármögnun fyrir verðtryggðum útlánum.

„Þessi verðtryggingarskekkja opnar þann möguleika að Innlánastofnanir hagnist á óvæntri verðbólgu en tapi þegar hún lækkar. Þetta er þó ekki ígildi peningaprentunar þar sem lausafjárstaða innlánsstofnana breytist ekki og verðbólguskellir fara yfirleitt saman við samdrátt og útlánatöp. Þannig verður hagnaður af verðtryggingarskekkjunni sjaldnast til þess að fóðra ný útlán enda liggur tapið alltaf handan við hornið þegar verðbólguskellurinn gengur yfir,“ segir í skýrslunni.  

Mjög hefur dregið úr verðtryggingarskekkju bankanna á undanförnum árum og við lok síðasta árs var hún hverfandi í efnahagsreikningi þeirra. Þannig var verðtryggingarjöfnuður stóru bankanna jákvæður – verðtryggðar eignir umfram skuldir – um samanlagt 60 milljarða króna, og var verðtryggingarsekkjan hjá þeim á bilinu 8 til 27 milljarðar króna.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×