Rósa Jónasardóttir verður framkvæmdastjóri fjármála en hún hefur síðasta áratug starfað í fjárstýringu hjá sænsku fyrirtækjunum Volvo Group og Volvo Cars, nú síðast sem yfirmaður áhættufjárfestingar. Rósa er með M.Sc.-gráðu í fjármálum frá Viðskiptaháskólanum í Gautaborg.
Kristbjörg Bjarnadóttir verður framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunar. Hún hefur undanfarin ár starfað hjá Íslenskri erfðagreiningu, þá einkum við erfða- og ónæmisfræði. Kristbjörg er með doktorsgráðu í líffræði frá Háskólanum í Genf og M.Sc.-gráðu í taugalíffræði frá sama skóla.
„Það er mikill styrkur fyrir Genís að fá Rósu og Kristbjörgu til liðs við okkur á þessum tímapunkti en félagið er í örum vexti í hröðu alþjóðlegu umhverfi líftækninnar sem krefst mikils af stjórnendum og öllu okkar starfsfólki. Ég er þess fullviss að reynsla og þekking Rósu og Kristbjargar muni nýtast okkur vel í þeim verkefnum sem framundan eru,“ er haft eftir Sigurgeiri Guðlaugssyni, forstjóra Genís, í tilkynningu.