Körfubolti

Tryggvi skoraði sjö er Zaragoza komst aftur á sigurbraut

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason og félagar fjarlægjast fallsvæðið.
Tryggvi Snær Hlinason og félagar fjarlægjast fallsvæðið. Vísir/Getty

Tryggvi Snær Hlinason og félagar hans í Zaragoza unnu mikilvægan 16 stiga sigur er liðið heimsótti Breogan í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í dag, 71-87.

Tryggvi og félagar hafa verið á góðu skriði í deildinni undanfarnar vikur og liðið var með þrjá sigra í seinustu fimm leikjum. Þetta góða gengi þýðir að liðið er komið langleiðina með að slíta sig frá fallbaráttunni í bili, en liðið mátti þó þola naumt eins stigs tap gegn Obradoiro í seinustu umferð.

Zaragoza hafði þó yfirhöndina frá fyrstu mínútu gegn Breogan í dag og leiddi með tíu stigum þegar flautað var til hálfleiks. Liðið jók svo forskot sitt jafnt og þétt í síðari hálfleik og vann að lokum öruggan 16 stiga sigur, 71-87.

Tryggvi skoraði sjö stig fyrir Zaragoza í dag og tók auk þess átta fráköst. Liðið situr nú í 13. sæti deildarinnar með 16 stig eftir 23 leiki, sex stigum fyrir ofan fallsvæðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×