Gagnrýni

Tár: Enginn grætur Lydiu Tár

Heiðar Sumarliðason skrifar
Cate Blanchett sem Lydia Tár á góðri stundu.
Cate Blanchett sem Lydia Tár á góðri stundu.

Kvikmyndin Tár rétt rataði í kvikmyndahús fyrir Óskarsverðlaunahelgina síðast liðnu og hægt að sjá hana í Bíó Paradís. Því miður birtist hún á sjóræningjasíðum fyrir margt löngu og mögulega margir freistast til að svindla og horfa þar. Ég mæli ekki með því, Tár er BÍÓmynd. 

Tár er því ekki mynd sem skal sjá heima við með alla þá truflun sem þar er að finna. Ef horft er heima í stofu eru örugglega ansi margir sem klára myndina ekki og freistast til að finna sér annað til að horfa á.

Tár er nefnilega heldur erfið áhorfs framan af. Það eru samt mistök að gefast upp, því hún tekur virkilega við sér í seinni hlutanum og er erfiðisins virði. 

Tár hlaut mikið lof gagnrýnenda og t.d. er meðaleinkunn hennar hjá Metacritic, sem tekur saman dóma helstu fjölmiðla, heilir 92. 

Það er töluvert síðan Tár kom út á flestum stöðum í heiminum en ýmislegt hefur drifið á daga hennar síðan þá.

Það var því ógurlegur meðbyr með Tár til að byrja með, en eitthvað fór þó að syrta í álinn þegar fram liðu stundir og blammeringar tók að fljúga. En meira um það síðar.

Er ekki eitthvað að fara að gerast?

Tár fjallar um konsertmeistarann Lydiu Tár sem er á hátindi ferilsins, var að gefa út bókina Tár on Tár og er að fara að stjórna flutningi Berlínarfílharmóníunnar á fimmtu sinfóníu Mahlers. Við verðum þess þó fljótt áskynja að ekki er allt með felldu í kringum hana, jafnvægi hennar á siðferðissvellinu virðist skert og ógæfa því tengd virðist vofa yfir henni.

Myndin hefst reyndar á endanum. Byrjað er á stuttri óræðri senu sem gerist mjög seint í tímalínu myndarinnar. Þar gerir óskilgreind persóna lítið úr Lydiu, án þess að hún viti af. Því næst fáum við kreditstlistann í heild sinni. 

Skömmu síðar fáum við næstum tíu mínútna senu þar sem viðtal er tekið við Tár á sviði fyrir framan áhorfendur þar sem hún ræðir sjálfa sig og listina. Þetta er mjög langt og ítarlegt viðtal og undir venjulegum kringumstæðum ekki áhugavert fyrir neinn nema áhugafólk um klassíska tónlist. Það er sumsé strax farið að reyna á þolrifin. Ég veit að þar er verið að skapa og skilgreina karakter hennar, en þessi sena er þó fullmikið af því góða og sennilega hefði verið hægt að fara aðrar og styttri leiðir í persónusköpun. 

Pistlahöfundi þótti viðtalssenan í Tár full mikið af því góða.

Það er þó líkt og höfundur og leikstjóri myndarinnar, Todd Field, sé með þessu að segja áhorfendum: Spennið beltin svo fast að þið getið ekki losað ykkur, því þetta verður langt ferðalag. 

Það er ofboðslega mikið blaðrað í þessum fyrstu sekvensum myndarinnar. Eiginlega svo mikið að ég átti erfitt með að greina hvað skipti máli og hvað ekki. Því var ég farinn að líta á klukkuna og velta fyrir mér hvort það væri ekki „eitthvað að fara að gerast.“

Það var í raun ekki fyrr en eftir eina og hálfa klukkustund sem allt fór að koma heim og saman og myndin fór að vekja áhuga minn (hún er í heildina u.þ.b. tvær klukkustundir og fjörutíu mínútur). Ég man ekki nákvæmlega hvað varð til að þess að hún fór skyndilega að fanga áhuga minn, líklegast var það þegar Lydia tekur þá óvenjulegu ákvörðun að láta fyrsta sellóleikara Berlínarfílharmóníunnar sitja hjá og heldur blinda hæfnisprufu meðal hinna sellóleikaranna um hver fær að flytja sóló. 

Á nýliðinn að fá sólóið?

Það var á þessum tímapunkti sem valdníðsla hennar fór að hafa áhrif á mig sem áhorfanda. Þar á undan var búið að sýna hve miskunnarlaus hún getur verið, en þær gjörðir náðu mér ekki. Mögulega drukknuðu þær hreinlega í blaðri um einhverja hljómsveitarpólitík.

Eftir þennan tímapunkt fór myndin að ná meiri og meiri tökum á mér og síðasti 1/3 hennar er með því betra sem ég hef séð lengi. Ef Field hefði nú aðeins náð að gera fyrstu 2/3 jafn grípandi, hefði Tár ekki aðeins unnið Óskarinn sem besta kvikmyndin, hún hefði rústað keppninni - hún fékk að lokum enga styttu.

Ekki allir á eitt sáttir

Eins og áður sagði fóru óveðursský að myndast skömmu eftir útgáfu myndarinnar og ekki allir á eitt sáttir með efnistök.

Hljómsveitarstjórinn Marin Alsop skaut fyrr á þessu ári allhressilega á Field. Það er nefnilega ansi margt við persónu Lydiu Tár sem speglast í lífi Alsops. Báðar eru þær hljómsveitarstjórar í stórri sinfóníuhljómsveit, eru lesbíur og eiga barn með konu úr hljómsveitinni.

Alsop var allt annað en sátt með efnistök og sagði margt í myndinni vera móðgandi, að hún móðgaði hana sem konu, sem hljómsveitarstjóra og sem lesbíu. Hún bætti svo við:

„Að hafa tækifæri til að setja á svið konu í þessu hlutverki og hafa hana níðing - er í mínum augum ótrúlega sorglegt. Öllum konum og öllum feministum ætti að finnast slík framsetning hryggileg því hún snýr ekki aðeins að kvenkyns hljómsveitarstjórum. Hún snýr að konum sem leiðtogum í okkar þjóðfélagi. Fólk spyr: Getum við treyst þeim.“

Ég skil vel að Alsop, og margir aðrir, séu fúlir yfir því að hálfgert illmenni sé gert úr lesbískri konu sem brotið hefur öll þau glerþök sem hægt er að finna í karllægum heimi klassískrar tónlistar. Ég skil hins vegar útskýringar Field á því hvers vegna hann valdi að hafa aðalpersónuna konu. 

Field fannst gjörsamlega búið mergsjúga umfjöllunarefnið vondir karlar í valdastöðu. Ég skil því vel að hann hafi ekki áhuga á að fara þá leið. Þetta er mun meira ögrandi framsetning en að hafa Lydiu dæmigerðan karlkyns valdníðing. 

Þessi nálgun Field þarf heldur ekki að koma á óvart, hann hafði dæmdan barnaníðing eina af aðalpersónum hinnar frábæru Little Children og náði að skapa allt því sympatískan einstakling úr honum. 

Það er þannig þegar listamenn ögra og eru í línudansi varðandi ákveðin málefni, að þeir opna á að vera skotnir niður, því sá línudans er ávallt dans í skotlínunni.

Ég er bæði sammála og ósammála Alsop. Auðvitað mætti ganga svo langt að segja það eins konar ofbeldi gagnvart henni að hafa persónurnar svo líkar og hafa ekki samband við hana og segja: „Hey, ég er að gera mynd um þessa persónu. Ég veit að það eru líkindi með ykkur, en það er hrein tilviljun.“

Því skil ég vel að fokið hafa í hana þegar hún heyrði fyrst af myndinni á þeim tíma sem hún var frumsýnd. Ef einhver myndi gera mynd um kvikmyndarýni Vísis, sem á tvö börn, var í Listaháskólanum, býr í Laugardalnum o.s.fv. - og til að bæta gráu ofan á svart væri hann algjör drullusokkur og níðingur - ég veit ekki alveg hvernig ég myndi taka því. 

Marin Alsop sveiflar sprotanum m.a. í Útvarpssinfóníuhljómsveit Vínarborgar.

Ef ofan á það væri bætt að ég væri hluti af tveimur undirokuðum hópum sem hefðu í gegnum tíðina ekki fengið að gerast kvikmyndarýnar og verið kerfisbundið haldið niðri, þá er ég ekki viss um að ég hefði húmor fyrir þessari kvikmynd. Ég myndi sennilega taka því persónulega, jafnvel sem stríðsyfirlýsingu gagnvart mér og mínum líkum.

Ég er hins vegar ekki í þeim sporum að taka Tár persónulega og get því litið á hana með eilítið hlutlausum augum. Ég er viss að þorri þeirra sem horfa á myndina muni ekki túlka hana jafn bókstaflega og Alsop. Mér finnst liggja í augum uppi að hún muni ekki hafa áhrif á framgöngu kvenkyns hljómsveitarstjóra. Það mun ekki nokkur heilvita manneskja ganga út af Tár og hugsa: Það er sko ekki hægt að treysta konum til að leiða stóra hljómsveit. 

Vald spillir

Field segir myndina aðeins fjalla um einn hlut, að vald geti spillt, sama hver þú ert, sama hver bakgrunnur þinn er, sama hvert litarhaft þitt er, sama hver kynhneigð þín er. Það er enginn hópur fólks yfir það hafinn að misbeita valdi, það hefur sannað sig trekk í trekk; fólk er glatað! 

Ef þú ætlar að gera kvikmynd um kvenkyns hljómsveitarstjóra í stórri sinfóníuhljómsveit liggur í hlutarins eðli að ansi margt mun speglast í lífi Alsop. Það má jafnvel túlka það þannig að alls ekki sé við Todd Field að sakast í þessu máli. Hann veit sem höfundur að töluvert dramatískari og bitastæðari nálgun er að persónan sé lesbía sem eigi barn og að konan hennar sé konsertmeistari við hljómsveitina, heldur en að hún sé barnlaus, gagnkynhneigð og einhleyp. 

Mér finnst þetta í raun gera Lydiu að sympatískari persónu sem hefur þurft að berjast fyrir sínu, það gerir hana líka mun breyskari og syndir hennar dramatískari. Það mælir í raun allt með þessari nálgun leikstjórans út frá kvikmyndahandritsforminu. 

Lydia er oft úti að aka í kvikmyndinni Tár. Stundum er hún þó úti að hlaupa, eins og á þessari mynd.

Sem höfundur þjónar Field aðeins einum herra; dramatúrgíunni. Stundum þurfa listamenn að taka áhættur og gera hluti sem mögulega gætu komið fólki í uppnám, það er partur af leiknum.  

Fyrir mér fjallar Tár í grunninn ekki um konu sem er lesbía heldur manneskja, með alla þá galla og breyskleika sem þessi dýrategund okkar er hrjáð af; græðgi, öfund, sjálfhverfu, reiði og losta. Við erum hönnuð til að vera veik fyrir slíkum syndum og það þarf sterk bein til að vera ekki spilltur þegar þú ert einráður. 

Það er hægt að rökræða Tár frá mörgum sjónarhornum og sennilega erfitt að komast að niðurstöðu sem allir verða sáttir við.

Ég ætla því að kveða upp Salómonsdóm: Þau hafa bæði rétt fyrir sér og bæði rangt fyrir sér. Sem er skemmtilegt þar sem bestu kvikmyndapersónurnar eru einmitt þannig, því er þessi deila þeirra hið ágætasta bíó.

Kynjaskekkja innan tónlistarheimsins

Besta og sanngjarnasta greiningin á myndinni sem ég hef fundið er frá Lisu Hirsch, blaðamanni vefsíðunnar San Francisco Classical Voice. Túlkunin er ekki af tilfinningalegum toga, hún tekur enga afstöðu til Alsop-málsins, heldur spyr hvað angri fagfólk við myndina. 

Hún segir að þó enginn búist við því að Tár sé jafn nákvæm og heimildarmynd, sé hún þó svo ónákvæm að annað hvort sé viljandi verið að skekkja raunveruleikann til að þjónusta framvinduna eða höfundurinn hafi ekki rannsakað hlutina nægilega vel.

Nokkrir af helstu hljómsveitarstjórum heims eiga eitt sameiginlegt.

Flest í grein Hirsch skiptir í raun litlu máli fyrir hinn almenna áhorfanda. Hún kemur þó með mjög sterkan punkt sem snýr að kynjaskekkjunni innan stéttar hljómsveitarstjóra. Í viðtalinu við Lydiu Tár í byrjun myndar og síðar í samtali við annan hljómsveitarstjóra, gerir hún lítið úr þessari skekkju og gefur í skyn að hún sé ekki lengur vandamál. Því næst telur hún upp nöfn ýmissa kvenkyns hljómsveitarstjóra. 

Hirsch skákar og mátar þessa röksemdafærslu og skrifar:

Við búum í heimi þar sem aðeins fimm af 130 atvinnusinfóníuhljómsveitum Þýskalands eru leiddar af konum. Aðeins tvær af stærstu bandarísku sinfóníuhljómsveitunum hafa kvenkyns tónlistarstjóra.
Það eru einungis örfáar konur sem leiða stærstu sinfóníuhljómsveitir eða óperuhús heimsins, á meðan sumir karlmenn leiða tvær stórar hljómsveitir og stundum eru þúsundir kílómetra á milli þeirra. Það er hreinlega ósannindi að halda því fram að konur hafi ekki yfir neinu að kvarta varðandi kynjaskekkjuna í ráðningum hljómsveitarstjóra. .

Að láta aðalpersónuna fara með staðlausa stafi og draga úr alvarleika stöðu kvenna í tónlistarheiminum finnst mér feill hjá Field og í raun álíka fáránlegt af hans hálfu og sú skoðun einhverra að persónan Lydia Tár megi ekki vera slæm manneskja.

Það væri sennilega hægt að skrifa heila bók um þessa kvikmynd og allt þetta argaþras henni tengt en samt ekki komast niðurstöðu um hver hefur rétt eða rangt fyrir sér. Það sem stendur þó eftir er frekar merkileg kvikmynd. Ef það er merki góðra mynda að áhorfandinn sé enn að velta þeim fyrir sér löngu eftir að ljósin hafa verið kveikt í salnum, þá er Tár sannarlega ein þeirra. 

Það breytir því ekki að hún er alltof löng - svipað og þessi pistill.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×