Viðskipti innlent

Ekki skrýtið að fólk sé hrætt við skatt­fram­talið

Máni Snær Þorláksson skrifar
Guðrún Lilja Sigurðardóttir.
Guðrún Lilja Sigurðardóttir. Aðsend

Lögmaður með sérþekkingu á sviði skattalöggjafar segir það ekki vera skrýtið að fólk sé hrætt við skattframtalið. Lagaumhverfið á sviðinu vefjist jafnvel fyrir færustu lögmönnum. Hún segir mikilvægt að fólk fari vel yfir framtalið og fer yfir það helsta sem þarf að hafa í huga þegar það er gert.

Skilafresti á skattframtalinu lýkur í næstu viku, nánar tiltekið þann 14. mars næstkomandi. Opnað var fyrir skil á skattframtalinu þann 1. mars síðastliðinn og því hefur fólk fengið viku til að skila framtalinu. Það eru þó án efa margir Íslendingar sem eiga enn eftir að skila inn sínu framtali.

Guðrún Lilja Sigurðardóttir, meðeigandi lögmannsstofunnar LEX, er með sérþekkingu á sviði skattalöggjafar og hefur á sínum ferli flutt stefnumarkandi mál á sviðinu fyrir héraðsdómstólum.

„Það er búið að einfalda okkur dálítið lífið í skattskilum sem er auðvitað bara jákvætt. Það er mjög mikið forskráð inn á framtalið og ég hugsa nú að langflestir einstaklingar fari beint inn í einföldun, þar sem þú getur smellt bara áfram, áfram og staðfesta,“ segir Guðrún í samtali við blaðamann.

Þrátt fyrir að búið sé að einfalda þetta mikið þá sé samt mikilvægt að renna yfir skattframtalið og sjá til þess að allt sé rétt:

„Þetta er svona ekki það skemmtilegasta sem maður gerir, að skila skattframtali, og maður vill helst bara ljúka því af eins fljótt og hægt er.

En það er samt kannski ágætt að hafa í huga að þó að það sé búið að forskrá eitthvað inn á framtalið manns og gera manni þessa leið auðveldari með þessum fítus, þessari einfaldari útgáfu af skattframtali, að þá er samt mikilvægt að skoða hvort það sé ekki örugglega allt rétt skráð. Hafa hugfast hvort það sé eitthvað sem vantar. “

Styrkir, viðskipti og Airbnb-tekjur

Guðrún nefnir sem dæmi að ef fólk hefur þegið einhverja styrki á árinu þá sé mikilvægt að gleyma því ekki. „Það er oft hægt að nýta frádrátt á móti svoleiðis styrkjum. Það er til dæmis eitthvað sem er ekki forskráð, maður þarf að huga að því sjálfur, athuga hvort maður sé með einhvern frádráttarbæran kostnað,“ segir hún.

„Það er ekki alltaf og það er ekki allur kostnaður frádráttarbær en svona sem dæmi, ef þú hefur fengið einhvern námsstyrk geturðu til dæmis dregið skólagjöldin frá sem þú greiddir á móti til að lækka skattskylduna á því.“

Einnig sé mikilvægt að passa upp á að öll viðskipti á eignum séu rétt skráð í framtalinu. „Það sem er kannski mikilvægast er að ef maður hefur verið að eiga í einhverjum fasteignaviðskiptum á árinu, kaupa og selja bíla, eða fengið arf, eitthvað sem er kannski ekki alltaf, að skoða það sérstaklega,“ segir hún.

„Er örugglega allt komið inn sem á að vera komið inn, þetta nýja? Er búið að taka allt þetta gamla út? Margir hafa verið að endurfjármagna hjá sér lán í tengslum við fasteignirnar sínar. Það þarf að tryggja og fara vel yfir að það séu allar upplýsingar réttar hvað það varðar.

Það sama sé að segja um tekjur vegna Airbnb, þær þurfi að vera rétt settar inn í framtalið. Það geti verið misjafnt hvernig það eigi að vera fært inn.

„Þeir sem uppfylla skilyrðin um að vera með heimagistingu færa sínar tekjur á einn hátt en aðrir sem fara til dæmis umfram þau mörk og eru komin inn fyrir svið atvinnutekna með sína Airbnb útleigu, þá ertu kominn inn í allt annað umhverfi. Þá geturðu farið að draga frá kostnað en þá er þetta líka skattlagt með öðrum hætti og það er komin virðisaukaskattskylda.“

„Það er ekkert skrýtið að fólk sé hrætt við þetta“

Ef fólk er í vafa með flókin atriði í framtalinu bendir Guðrún því á að leita sér aðstoðar með framtalið. „Stundum getur maður fengið aðstoð hjá skattinum við framtalsgerð ef maður er með einhverjar spurningar,“ segir hún.

„Svo er líka hægt að leita til sérfræðinga og það getur alveg borgað sig ef þetta eru stærri og flóknari atriði.“

Hún furðar sig einmitt ekki á því að fólk sé smeykt við það að skila skattframtalinu. „Lagaumhverfið á sviði skattamála vefst auðvitað fyrir mörgum, meira að segja færustu lögmönnum,“ segir hún.

„Það er ekkert skrýtið að fólk sé hrætt við þetta eða finnist þetta óþægilegt. Þess vegna er líka bara betra að leita sér upplýsinga, maður getur byrjað á því að reyna sjálfur en ef það gengur ekki þá er hægt að fá aðstoð. Það er betra að gera það heldur en að það komi eitthvað í ljós eftir á.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×